Upp­gjör: Silkeborg-KA 1-1 | Töfrar Hall­gríms tryggðu KA frá­bær úr­slit

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Hallgrímur Mar
Hallgrímur Mar Vísir/Ernir Eyjólfsson

KA náði í dag í jafntefli í fyrri leik sínum gegn Silkeborg, frá Danmörku, í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu. Lokatölur 1-1 á JYSK Park úti í Silkeborg, en síðari leikurinn mun fara fram á Akureyri eftir rúma viku. Töfrar Hallgríms Mars í uppbótatíma tryggðu að Akureyringar fara með jafna stöðu inn í síðari leikinn.

Fyrri hálfleikurinn var afskaplega rólegur og lítið um færi í hægum leik. Heimamenn héldu boltanum vel en gerðu þó lítið fram á við gegn þéttum varnarleik KA. Akureyringar voru sömuleiðis ekki beittir fram á við og voru helstu vopn þeirra löng innköst og hornspyrnur.

Silkeborg komst þó yfir rúmum fimm mínútum fyrir hálfeiksflautið. Kom það mark nokkurn veginn upp úr þurru. Fékk þá Nýsjálendingurinn Callum McCowatt tíma rétt fyrir utan teig KA. hann var ekkert að tvínóna við hlutina og lét bara vaða. Fast skot hans smurði hliðarnetið og heimamenn komnir í forystu.

Besta færi KA í fyrri hálfleik kom skömmu seinna þegar minnstu mátti muna að Guðjón Ernir Hrafnkelsson næði að pota boltanum fram hjá Nicolai Larsen í marki Silkeborg. Svekkjandi staða í hálfleik fyrir KA miðað við frammistöðu.

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, setti Birnir Snær Ingason inn á í hálfleik í þeirri von að fá töfra frá þessum nýjasta leikmanni liðsins.

Heimamenn hófu fyrri hálfleikinn betur, en leikurinn var samt fljótur að fara í sama far og í fyrri hálfleik. Gestirnir í KA byrjuðu þó sífellt að halda betur og betur í boltann.

Á 63. mínútu komst Ásgeir Sigurgeirsson í afar gott færi. Negldi þá Steinþór Már Auðunsson, markvörður KA, boltanum fram beint á Ásgeir sem komst í gott færi, en skot hans rann rétt fram hjá markinu. Var Ásgeir tekinn út af strax í kjölfarið og kom Viðar Örn Kjartansson inn á í hans stað.

Opnaðist leikurinn talsvert síðasta korterið og var mun meira um skot á bæði mörkin. Það var þó yfirleitt langskot eða hálffæri innan teigs.

Það var svo í uppbótatíma sem Hallgrímur Mar lét að sér kveða, sem eru yfirleitt góð fyrirheit fyrir KA. Ívar Örn sendi þá langan bolta inn í teig Silkeborg. Rodri skallaði þá boltann beint upp í loftið. Hallgrímur Mar var fyrstur á boltann og lagði hann fyrir sig áður en hann setti hann alveg upp í bláhornið hægra megin úr teignum. Geggjað mark sem gæti reynst dýrmætt.

Atvik leiksins

Jöfnunarmark KA var frábært og verðskuldað. Eftir góða frammistöðu allan leikinn þá uppskáru Akureyringar. Hallgrímur Mar hafði lítið sést en þarna töfraði hann fram mark, líkt og hann hefur gert oft áður fyrir sína menn.

Stjörnur og skúrkar

Varnarleikur KA var til fyrirmyndar í leiknum ef frá er talið augnablikið þegar markið kom. Rodri var flottur í miðri vörninni og Marcel Rømer á miðjunni fyrir framan hann. Afar yfirvegaðir í öllum sínum aðgerðum og virtust þeir tveir halda ákveðinni ró í liði KA.

Steinþór Már í markinu var einnig afar öruggur.

Hallgrímur Mar verður einnig að vera nefndur fyrir þetta dýrmæta og glæsilega jöfnunarmark.

Leikmenn Silkeborg voru ekkert spes í þessum leik. Spiluðu hægt á milli sín og sköpuðu sér fá opin marktækifæri. Verandi mun stærra liðið í þessari viðureign verður frammistaða þeirra að teljast vonbrigði.

Dómarar

Belginn Bram Van Driessche dæmdi þennan leik, en hann var valinn dómari ársins í belgísku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Hafði hann afskaplega góð tök á leiknum, en einnig voru engin stór atvik sem hann þurfti að taka ákvörðun um.

Stemning og umgjörð

Hlýtt og sólríkt veður í Silkeborg í dag. Leikurinn fór fram á Rúmfatalagersvellinum, JYSK Park, sem tekur 10.000 manns. Ekki var þó fullur völlur í dag, eða rétt um tvö- til þrjú þúsund manns. Að sjálfsögðu áttu KA menn fólk í stúkunni sem létu vel í sér endrum og eins á meðan leik stóð.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira