Fótbolti

Fer ekki á stór­mót án þess að fara í úr­slit

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sarina Wiegman knúsar Michelle Agyemang sem skoraði mikilvæg jöfnunarmörk gegn bæði Svíþjóð og Ítalíu til að knýja fram framlengingu.
Sarina Wiegman knúsar Michelle Agyemang sem skoraði mikilvæg jöfnunarmörk gegn bæði Svíþjóð og Ítalíu til að knýja fram framlengingu. Alexander Hassenstein/Getty Images

Sarina Wiegman stýrði Englandi í úrslitaleik Evrópumóts kvenna í fótbolta í gærkvöld. Það ætti að koma fáum á óvart, enda fara hennar lið ávallt í úrslit.

Enska liðið vann annan nauma sigurinn í röð á EM í Sviss í gærkvöld. Eftir að hafa slegið Svía út í 8-liða úrslitum eftir vítakeppni vann England 2-1 sigur á Ítölum í undanúrslitum vegna marks Chloe Kelly í framlengingu sem fylgdi eftir eigin klúðruðu vítaspyrnu á 119. mínútu.

England lenti undir í báðum leikjum, 2-0 undir gegn Svíum og 1-0 gegn Ítölum, en sýndi karakter að snúa taflinu við og fara með herkjum í úrslit.

Hin hollenska Wiegman þekkir vel til þess að fara í úrslitaleiki á stórmótum. Um er að ræða fimmta stórmót hennar sem þjálfari og í fimmta sinn leikur lið undir hennar stjórn til úrslita.

Áður en hún tók við Englandi árið 2021 var hún þjálfari Hollands frá 2016 til 2021. Hún stýrði þeim hollensku til sigurs á EM 2017 sem fram fór í Hollandi og liðið lenti í öðru sæti á HM 2019 eftir tap fyrir Bandaríkjunum í úrslitum.

Næsta Evrópumót færðist um ár, til sumarsins 2022, vegna kórónuveirufaraldurs og aftur vann hennar lið EM á heimavelli; England varð Evrópumeistari á Wembley í Lundúnum.

Þær ensku fóru þá í úrslit á HM 2023 en töpuðu fyrir Spáni í úrslitum. Líklegt þykir að England og Spánn mætist öðru sinni í úrslitaleik í ár en Spánn mætir Þýskalandi í undanúrslitum í kvöld.

Nú er að sjá hvort Wiegman geti stýrt sínu liði til sigurs á stórmóti þegar hennar konur eru ekki á heimavelli.

Árangur Wiegman á stórmótum:

  • EM 2017 í Hollandi: Sigurvegari (Holland 4-2 Danmörk í úrslitum)
  • HM 2019 í Frakklandi: 2. sæti (Holland 0-2 Bandaríkin í úrslitum)
  • EM 2022 á Englandi: Sigurvegari (England 2-1 Þýskaland í úrslitum)
  • HM 2023 í Ástralíu: 2. sæti (England 0-1 Spánn í úrslitum)
  • EM 2025 í Sviss: Úrslit



Fleiri fréttir

Sjá meira


×