Körfubolti

Þreyttur á fallbaráttu og furðu­legum á­kvörðunum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Elvar Már er farinn frá Maroussi í Grikklandi og orðinn leikmaður Anwil Wloclawek í Póllandi.
Elvar Már er farinn frá Maroussi í Grikklandi og orðinn leikmaður Anwil Wloclawek í Póllandi. vísir / bjarni

Körfuboltamaðurinn Elvar Már Friðriksson var orðinn þreyttur á fallbaráttu og furðulegum ákvörðunum í Grikklandi og samdi frekar við topplið í Póllandi.

Elvar hefur verið á mála hjá gríska liðinu Maroussi undanfarin tvö tímabil og staðið í ströngu en nú hefur hann kvatt grísku fallbaráttuna og samið við Anwil Wloclawek, eitt besta lið Póllands.

„Ég fékk gott tilboð þaðan og leist mjög vel á bæði hlutverk og aðstæður. Svo langaði mig líka að fara í lið sem er að berjast um titla. Ég er búinn að vera við botninn síðustu tvö ár í Grikklandi að berjast í fallbaráttu.

Mig langaði að komast í aðstæður þar sem ég get farið að keppa um titla og farið að vinna fleiri leiki. Það léttir manni oft lífið.“

Fjórir þjálfarar á einu tímabili

Elvar segir lífið í Grikklandi hafa verið ljúft en hjá liðinu sem hann spilaði fyrir voru erfiðar aðstæður og furðulegar ákvarðanir teknar.

„Eins og í vetur var þetta mjög skrítið tímabil, ég var með fjóra þjálfara og svo voru leikmenn að koma inn og út í hverjum einasta mánuði. Maður var alltaf að aðlagast einhverju nýju og náði aldrei að byggja ofan á neitt. Þannig að það var mikill óstöðugleiki.

Ákvarðanatökur og hversu blóðheitir þeir eru, að taka ákvarðanir eftir tapleiki og vilja breyta til… það truflaði mig mest.“

Elvar Már í leik með Maroussi á síðasta tímabili. maroussi

Þrátt fyrir þessa miklu leikmannaveltu vildi Maroussi halda Elvari en honum leist betur á að taka næsta tímabil í Póllandi, þar sem hann verður í stóru hlutverki.

„Þeir voru að leitast eftir leikstjórnanda sem er meiri sendingamaður, stjórnar leiknum og spilar aðra uppi. Hlutverkið mitt í Evrópu er aðeins öðruvísi en hjá landsliðinu.

Ég er meira að skora með landsliðinu en í Evrópu er ég meiri sendingamaður, gef stoðsendingar og stjórna spilinu. Þeir vildu fá mann með reynslu í það hlutverk.“

Elvar Már í leik með landsliðinu. vísir / anton

Fjallað var um félagaskipti Elvars í Sportpakka Sýnar í gærkvöldi. Innslagið má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×