Fótbolti

„Ætlum ekki að sprengja þetta í lausaloft“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Höskuldur Gunnlaugsson er klár í slaginn.
Höskuldur Gunnlaugsson er klár í slaginn. Vísir/Hulda Margrét

„Það er mikil tilhlökkun í hópnum og eftirvænting. Menn eru gíraðir og klárir í þetta,“ segir Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, um leik liðsins við Bosníumeistara Zrinjski Mostar sem heimsækja Kópavogsvöll klukkan 17:30.

Fyrri leiknum lauk 1-1 ytra þar sem þeir bosnísku jöfnuðu af vítapunktinum seint í leiknum eftir leik sem einkenndist af glimrandi fínum varnarleik Blika og virtust gestirnir ekki líklegir til afreka stærstan part.

Klippa: Höskuldur spenntur fyrir leik kvöldsins

„Heilt yfir spilaðist þetta eins og við lögðum þetta upp. Við vorum með reynslu frá því tveimur árum áður, þetta er hostile og erfiður útirvöllur þar sem þeir hafa náð í góð úrslit og einhvern veginn náð að stýrt tempoi og stemningu á þessum velli,“ segir Höskuldur.

„Við vildum slökkva í því og að einhverju leiti vera með stjórn á leiknum upp á agaðan varnarleik með skyndisóknarmöguleikum. Heilt yfir er ekki hægt að segja annað en það hafi heppnast vel. Súrt að gefa þetta víti í lokin en það breytir því ekki að þetta eru góð úrslit á erfiðum útivelli. Nú er okkar að klára þetta á heimavelli.“

Búast megi fastlega við frábrugðnum leik þegar liðin eigast við í kvöld. Blikarnir reyni frekar að stýra leiknum meira með boltann en þeir gerðu í Bosníu.

„Óumflýjanlega held ég að þetta verði öðruvísi leikur. Sökum þess að við séum yfirleitt meira með frumkvæðið á boltanum á okkar heimavelli. Það breytir klárlega sviðsmyndinni á morgun, að við stýrum ferðinni meira með boltann en á mislægum og erfiðum útivelli,“

„Í grunninn viljum við enn hafa agaðan varnarleik og þéttir saman hvar sem við erum að verjast á vellinum. Þetta eru ennþá sömu góðu leikmennirnir sem við erum að mæta, sem geta refsað. Við erum ekki að sprengja þetta í lausaloft,“ segir Höskuldur.

Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í spilaranum.

Breiðablik og Zrinjski Mostar mætast klukkan 17:30. Leikurinn er sýndur beint á Sýn Sport Ísland og hefst útsending klukkan 17:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×