Innlent

Veita út­lendingum greiðari að­gang að heil­brigðis­kerfinu en er skylt

Kjartan Kjartansson skrifar
Margrét Einarsdóttir lagaprófessor og formaður stjórnar Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík.
Margrét Einarsdóttir lagaprófessor og formaður stjórnar Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík. Vísir/Lýður

Prófessor í lögfræði telur að ástæða geti verið til að meta kostnað heilbrigðiskerfisins vegna fjölgunar efnahagslega óvirkra Evrópubúa hér á landi. Íslensk stjórnvöld veiti erlendum ríkisborgurum greiðari aðgang að sjúkratryggingakerfinu en þeim sé skylt.

Ríkisborgarar Evrópusambandsríkja og EES-ríkja sem eru ekki virkir á vinnumarkaði þurfa að skrá lögheimili sitt hér ef þeir ætla að dvelja á Íslandi lengur en í þrjá mánuði. Þeim hefur fjölgað verulega sem það gera á undanförnum árum og voru þeir á sjöunda hundrað á ári frá 2020 til 2023. Þá eru námsmenn ekki taldir með.

Í orði er forsenda þess að þeir geti sýnt fram á framfærslu og að þeir séu sjúkratryggðir. Á borði hefur slíkum kröfum þó verið lítt framfylgt, að því er kemur fram í grein sem Margrét Einarsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík og formaður stjórnar Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar skólans, skrifaði um rannsókn sem hún gerði í Tímarit Lögréttu.

Þá bendir Margrét á að íslensk stjórnvöld veiti efnahagslega óvirkum innflytjendum almennt rétt á sjúkratryggingu í íslenska heilbrigðiskerfinu hafi þeir haft lögheimili hér á landi í að minnsta kosti sex mánuði, óháð þjóðerni og efnahagslegri stöðu.

„Það í raun gerist það sama með íslenska ríkisborgara sem flytja til Íslands og alla aðra. Það er bara fyrir stjórnmálamenn hvort við viljum hafa það þannig. Við þurfum ekki að hafa það þannig,“ segir Margrét í samtali við Vísi.

Þurfa ekki að veita aðgang að sjúkratryggingum fyrr en eftir fimm ár

Íslensk stjórnvöld veita efnahagslega óvirkum EES-borgurum mun ríkari réttindi en þeim ber skylda til samkvæmt EES-samningnum. Hann gerir ekki ráð fyrir að þessir einstaklingar öðlist þann rétt fyrr en þeir hafa fengið ótímabundið dvalarleyfi eftir fimm ára samfleytta og löglega dvöl í gistiríki.

Líkir Margrét þessu við „gullhúðun“ löggjafar sem innleiddi Evróputilskipun um rétt borgara ESB og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar. Gullhúðun hefur verið notað um það þegar íslensk lög sem innleiða evrópskar tilskipanir ganga lengra en tilskipanirnar sjálfar.

Margrét nefnir til samanburðar að í Noregi, sem er einnig hluti af EES, taki það efnahagslega óvirka borgara EES-svæðisins ár að fá aðgang að þarlendum sjúkratryggingum.

Þurfa ekki að sýna fram á fullar tryggingar hjá Þjóðskrá

Til þess að fá skráð lögheimili á Íslandi eiga efnahaglega óvirkir ríkisborgarar EES-svæðisins að þurfa að sýna fram á að þeir hafi sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu. Rannsókn Margrétar leiddi í ljós að þeirri kröfu sé ekki framfylgt hjá Þjóðskrá.

Þannig hafi aðeins þrettán prósent þeirra sem sóttu um lögheimili hjá Þjóðskrá útvegað sér sérstaka sjúkratryggingu frá tryggingafélagi í heimalandi sínu. Um fjórðungur hafi keypt tryggingar á Íslandi en þær nái þó ekki yfir allt, þar á meðal kostnað vegna þungunar og fæðingar og sjúkdóma sem tengjast áfengis- og vímuefnaneyslu.

Þjóðskrá tekur við umsóknum um skráningu lögheimilis. Stofnunin hefur ekki framfylgt ítarlega kröfum sem eiga að vera gerðar til ríkisborgara EES-ríkja sem eru ekki virkir efnahagslega samkvæmt rannsóknar lagaprófessors við HR.Vísir/Vilhelm

Þjóðskrá hafi til þessa tekið evrópska sjúkratryggingakortið sem fullnægjandi sjúkratryggingu þrátt fyrir að það sé aðeins ætlað til ferðalaga en ekki lengri dvöl.

Margrét hefur þó ekki upplýsingar um hvort að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu við þennan hóp fyrstu sex mánuði dvalar hans falli á einstaklingana sjálfa eða íslenska ríkið. Stjórnvöldum sé ekki skylt að greiða fyrir hana og sé heimilt að rukka þá um kostnaðinn.

„Með hliðsjón af auknum fjölda efnahagslega óvirkra EES-borgara sem hafa flutt til Íslands á undanförnum árum kann að vera ástæða til að leggja mat á kostnað íslenska heilbrigðiskerfisins vegna þessa,“ segir í grein Margrétar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×