Fótbolti

„Þakk­lát fyrir að vera upp­alin í þessum klúbbi“

Kolbeinn Kristinsson skrifar
Thelma Karen átti hörkuleik fyrir FH, en það dugði ekki til.
Thelma Karen átti hörkuleik fyrir FH, en það dugði ekki til. Vísir/Anton Brink

Thelma Karen Pálmadóttir, leikmaður FH, átti stórleik í bikarúrslitaleiknum gegn Breiðablik og skoraði tvö mörk og átti skot í innanverða stöngina í venjulegum leiktíma.

Aðspurð um fyrstu viðbrögð eftir leik segist leikmaðurinn knái einfaldlega vera ógeðslega svekkt. 

„Mér fannst við gefa allt í þetta sem gerir þetta enn þá meira svekkjandi.“ 

Aðspurð um tilfinninguna að spila fyrir framan allt þetta fólk sagði Thelma Karen: 

„Þakklát fyrir að vera uppalin í þessum klúbbi og þetta er liðið mitt og allt fólkið sem horfði á okkur og studdi við okkur í dag, bara takk fyrir að mæta, þetta var frábær upplifun.“ 

Tímabilið hjá kvennaliði FH, sem er nú þegar komið í sögubækurnar, er síður en svo búið en liðið er í öðru sæti sem stendur í deildinni og er að elta Breiðablik þar. 

„Heldur betur, við eigum eftir að mæta Breiðablik aftur og við munum klárlega refsa fyrir þetta, við munum ekki gleyma þessu. Við ætlum að halda áfram og gera betur í deildinni og við ætlum að sjálfsögðu að trufla aðeins liðin fyrir ofan okkur.“ 

Eins og áður segir var þetta mjög góður leikur hjá Thelmu Karen á stóra sviðinu í kvöld en hún er fædd árið 2008 og á svo sannarlega framtíðina fyrir sér í boltanum.

Klippa: Thelma eftir súrt tap í bikarúrslitum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×