Skoðun

Út­gerðin skuldar okkur skýringar

Guðmundur Helgi Þórarinsson skrifar

Á nýyfirstaðinni makrílvertíð veiddu íslensk skip og færeysk á sömu miðum, eins og svo oft áður. Einhverra hluta vegna drógu íslensku skipin mun verðminni fisk á land. Undir lok vertíðarinnar fengu Íslendingar ekki nema um 40% af því verði sem Færeyingar fengu fyrir sama hráefni. Útgerðin verður að skýra fyrir þjóðinni hvernig á þessu stendur. Um er að ræða fjárhæðir sem hlaupa á milljörðum.

VM hefur traustar heimildir fyrir því að Færeyingar hafi fengið allt að 327 krónur fyrir kílóið af makríl á vertíðinni, eða 17 danskar krónur. Undir lok vertíðarinnar fengu íslensk skip á sama tíma 132 krónur fyrir hvert kíló sem veiddist í trollið. Heimildir herma einnig að Norðmenn hafi fengið 33 krónur norskar, eða um 397 krónur íslenskar, fyrir kílóið af makríl sem veiddur var í nót á vertíðinni.

Íslensku skipin og þau færeysku veiddu makrílinn á sömu miðum. Eini munurinn er sá að að færeysku skipin landa að jafnaði í Færeyjum en þau íslensku á Íslandi.

VM hefur um árabil bent á óeðlilegan mun á aflaverðmæti íslenskra skipa og skipa nágrannalandanna, hvað uppsjávarveiðar varðar.

Í grein eftir Indriða G. Þorláksson, fyrrverandi skattstjóra, frá 2019 um Samherjamálin vitnar hann í skýrslu nefndar fjármála- og efnahagsráðherra frá 2016 þar sem segir meðal annars: „Um eignir Íslendinga á aflandssvæðum er sá þáttur, m.a. í sjávarútvegi, nefndur til skýringa á uppsöfnun aflandseigna og sagt varfærnislega að ekki sé hægt að útiloka að slíkt sé enn í gangi. Í skýrslunni er m.a. þetta orðalag að finna: „Til skamms tíma áttu mörg sjávarútvegsfyrirtæki dótturfyrirtæki á Kýpur sem nýttust þeim í skattalegu tilliti. Telja sumir að þessi dótturfélög íslensku sjávarfyrirtækjanna hafi einnig verið notuð við milliverðlagningu afurðanna.“

Þannig var hægt að komast hjá skattgreiðslum. Svo virðist sem lítið hafi breyst í þessum efnum.

Miðað við þær upplýsingar sem VM hefur fengið er verðmunur á makrílafla á milli Íslands og Færeyja um það bil 200 krónur á kíló. Ef við tækjum aðeins uppsjávarskip Brims, væri munurinn á aflaverðmæti, ef aflanum hefði verið landað í Færeyjum, rúmir fjórir milljarðar króna á vertíðinni. Hver skyldi heildarmunurinn hafa verið hjá flotanum öllum á nýliðinni vertíð?

Ljóst má vera að það undirverð sem íslensk skip fá fyrir makrílaflann sinn, samanborið við nágrannalöndin, bitnar á ríkissjóði í formi glataðra skatttekna, sveitarfélaga vegna lægri launa og hafnarsjóðum þar sem aflanum er landað. Síðast en ekki síst bera sjómenn, sem fá ekki nema 40% af því sem færeyskir kollegar fá fyrir aflann, skarðan hlut frá borði. Í kjarasamningi útgerðarinnar og sjómanna er kveðið á um að sjómenn fái þriðjung afurðaverðsins í sinn hlut.

VM krefst þess að útgerðin skýri, fyrir sjómönnum og íslensku þjóðinni, hvers vegna íslenskar útgerðir selja aflann sinn á hrakvirði.

Höfundur er formaður VM – Félags vélstjóra og málmiðnaðarmanna




Skoðun

Sjá meira


×