Íslenski boltinn

Sam­eigin­legt lið Grinda­víkur og Njarð­víkur upp í Bestu eftir ótrú­legan sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Spila í Bestu á næsta ári.
Spila í Bestu á næsta ári. Stefán Marteinn

Sameiginlegt lið Grindavíkur og Njarðvíkur lagði HK 4-1 í hreinum úrslitaleik um hvort liðið myndi tryggja sér sæti í Bestu deild kvenna í fótbolta á næstu leiktíð.

Fyrir leikinn var ljóst að ÍBV hefði unnið Lengjudeild kvenna en enn átti eftir að útkljá hvaða lið myndi fara upp með Eyjakonum. HK var í 2. sætinu fyrir leik dagsins á meðan heimakonur voru tveimur stigum þar á eftir.

Þegar komið var í leik dagsins var hins vegar aldrei spurning hvort liðið ætlaði sér upp. Sophia Faith Romine kom Grindavík/Njarðvík yfir á 11. mínútu. Hún tvöfaldaði svo forystu heimaliðsins á 22. mínútu.

Loma McNeese minnkaði muninn fyrir HK þegar tíu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. Staðan 2-1 þegar gengið var til búningsherbergja. Það var svo rétt tæp klukkustund liðin þegar heimaliðið fékk vítaspyrnu.

Danai Kaldaridou skilaði knettinum í netið og fór langleiðina með að tryggja sætið í Bestu deild kvenna að ári. Ása Björg Einarsdóttir gerði svo endanlega út um leikinn í uppbótartíma.

Sætinu í Bestu fagnað.Stefán Marteinn

Önnur úrslit

  • Grótta 3-0 Keflavík
  • Fylkir 1-9 ÍBV 
  • Haukar 2-0 Afturelding
  • ÍA 1-3 KR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×