Fótbolti

„Frammi­staða sem við getum svo sannar­lega byggt ofan á“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Elías Rafn hér nýbúinn að verja meistaralega.
Elías Rafn hér nýbúinn að verja meistaralega. Vísir/EPA

Elías Rafn Ólafsson varði oft og tíðum meistaralega þegar Ísland laut í lægra haldi fyrir Frakklandi í rimmu liðanna í undankeppni HM 2026 í fótbolta karla í París í kvöld. 

„Við spilum frábæran leik og erum óheppnir að taka ekki eitt stig með okkur heim. Á móti kemur að við göngum stoltir frá þessum glugga. Frammistaðan var góð og við náðum markmiðinu okkar sem var að vera með þrjú stig eftir þessa tvo leiki og gefa Frökkunum leik sem við gerðum svo sannarlega,“ sagði Elías Rafn að leik loknum. 

„Við erum á leiðinni inn í mikilvæga leiki í október og þar þurfum við einfaldlega að fylla völlinn og ná í þau stig sem við þurfum á að halda þar. Við getum klárlega byggt á spilamennskunni í síðustu tveimur leikum þegar þangað kemur,“ sagði markvörðurinn öflugi. 

Elías Rafn hélt íslenska liðinu á floti á köflum í leiknum og var skiljanlega ánægður spurður út í sinn leik: „Ég er bara sáttur við hvernig ég spilaði að þessu sinni en hefði verið enn glaðari ef það hefði skilað stigum á töfluna. Ég hefði viljað sjá jöfnunarmarkið standa en svona er bara fótboltinn og ekkert við því að gera,“ sagði hann um spilamennsku sína. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×