Skoðun

Verndum líf­fræði­lega fjöl­breytni í hafi!

Laura Sólveig Lefort Scheefer, Valgerður Árnadóttir og Þorgerður María Þorbjarnardóttir skrifa

Líffræðileg fjölbreytni er undirstaða heilbrigðra vistkerfa sem viðhalda lífkerfum jarðar. Hnignun hennar er eitt af stærstu umhverfisvandamálum samtímans og helst í hendur við loftslagsbreytingar, sjálfbæra þróun, auðlindanýtingu, efnahag, mengun og lýðheilsu.

Ef mannkyn ætlar sér áframhaldandi búsetu á jörðinni er nauðsynlegt að semja frið við náttúruna og hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Á Íslandi hefur orðræðan um líffræðilega fjölbreytni oft einkennst af því að hér sé tegundafábreytni. Raunin er sú að sérstaða íslenskrar náttúru felst í jarðfræðilegum fjölbreytileika og einstökum aðstæðum sem hafa skapað mikinn innan­tegundabreytileika. Verðmæti íslenskrar náttúru liggur þó ekki aðeins í fjölda tegunda heldur í sérstöðu vistkerfa og aðlögunarhæfni þeirra. Verkefni okkar er að vernda þessa sérstöðu og aðstæður sem hafa mótað hana.

Íslensk stjórnvöld þurfa að lögfesta BBNJ samninginn

Þessa dagana er frumvarp til umsagnar um lög um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni hafsins utan lögsögu ríkja. (BBNJ-samningur)

Með frumvarpinu er lagt til að innleiða lagalegar skuldbindingar samnings Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni hafsins utan lögsögu ríkja (BBNJ-samningsins). Ísland undirritaði samninginn í september 2023 en ekki verður unnt að fullgilda hann nema að undangengnum lagabreytingum. Þar sem Ísland hefur ríka hagsmuni af því að taka þátt í fyrstu ráðstefnu aðildarríkja eftir gildistöku samningsins er mikilvægt að lögfesting verði að veruleika án tafar.

Við viljum leggja sérstaka áherslu á að staðið verði við skuldbindingar um 30 % vernd í hafi rétt eins og á landi fyrir árið 2030. Ísland á að beita sér fyrir því að verndað verði stærra hlutfall af mikilvægum búsvæðum fiskjar og annarra sjávardýra.

Hafið – undirstaða lífs og menningar

Frá upphafi byggðar hefur hafið verið Íslendingum lífsbjörg, en hafið er ekki einungis auðlind sem nýtist, heldur undirstaða alls lífs á jörðinni: hafið stýrir veðurkerfum, geymir kolefni, framleiðir súrefni og hýsir ótal lífverur sem halda vistkerfum gangandi.

Núna stöndum við frammi fyrir alvarlegum áskorunum þegar kemur að vistkerfum sjávar, bæði innan íslenskrar efnahagslögsögu og á úthöfum: loftslagsbreytingar, súrnun sjávar, mengun, ofveiði og ný ógn af fyrirhuguðum djúpsjávar-námugreftri. Þrátt fyrir þetta er ekki of seint að bregðast við.

Ísland hefur þegar skuldbundið sig ásamt öðrum ríkjum til að vernda að lágmarki 30% hafs og lands fyrir árið 2030. Enn sem komið er hefur Ísland friðað einungis 0,07% efnahagslögsögunnar. Hér er því mikið verk óunnið, því kóralrif, sæfjaðragarðar, þaraskógar, þörungabreiður og neðansjávarhryggir við Ísland eru vistkerfi sem ber að vernda. Með markvissum aðgerðum hefur Ísland tækifæri til að verða leiðandi afl í hafvernd á heimsvísu.

Þá er gríðarlega mikilvægt að Ísland beiti sér ekki bara fyrir því innan lögsögu Íslands heldur einnig utan. Einnig er mikilvægt að þjóðin fari í gagngerar rannsóknir á skaðsemi mismunandi veiðarfæra en einmitt í ljósi þess hve stórtæk þau eru orðin hafa þau að margra áliti valdið nú þegar gríðarlega miklu tjóni á mikilvægum búsvæðum. Nægir þar eitt að nefna kóralsvæði og önnur slík búsvæði sem laða að sér fjölmargar tegundir og eru í grunninn svæði sem eru best til þess fallin að vernda líffræðilega fjölbreytni.

Ábyrgð Íslands og tækifærið framundan

Átta íslensk náttúru- og dýraverndarsamtök skoruðu 2. júní 2025 á stjórnvöld að fullgilda samninginn hið fyrsta og kynna skýra áætlun um verndun að minnsta kosti 30% efnahagslögsögunnar fyrir 2030. Slíkt myndi styrkja trúverðugleika Íslands á alþjóðavettvangi og sýna að landið ætlar ekki einungis að tala fyrir vernd hafsins heldur grípa til raunverulegra aðgerða.

BBNJ-samningurinn er lykiltæki til að tryggja vernd og sjálfbæra nýtingu hafsins utan lögsögu ríkja. Með fullgildingu hans tekur Ísland ábyrgð á alþjóðavettvangi og tryggir sér sæti við borðið þegar ákvarðanir eru teknar um vernd svæða á úthöfunum. Það eru beinir hagsmunir fyrir Ísland sem sjávarþjóð.

Íslensk stjórnvöld þurfa að sýna raunverulegan metnað með því að:

●Fullgilda BBNJ-samninginn án tafar.

●Setja fram skýra áætlun um að vernda a.m.k. 30% efnahagslögsögunnar fyrir árið 2030, þar af stóran hluta með fullri vernd.

●Vinna í samstarfi við frjáls félagasamtök og vísindasamfélagið að skilvirkri vernd og samráðsvettvangi.

●Tala með skýrri rödd á alþjóðavettvangi og deila þeirri þekkingu sem Ísland hefur aflað um hafið, vistkerfi þess og sjálfbæra nýtingu.

●Taka afgerandi skref í hafvernd innan eigin lögsögu, m.a. með friðlýsingum mikilvægra vistkerfa og aðgerðum gegn svartolíu á norðurslóðum.

Frumvarpið sem nú liggur fyrir er nauðsynlegt skref til að Ísland geti fullgilt BBNJ-samninginn og tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um verndun hafsins. Með því sýnir Ísland í verki að það tekur ábyrgð sína alvarlega gagnvart líffræðilegri fjölbreytni og framtíð mannkyns.

Undirritaðar,

Laura Sólveig Lefort Scheefer er forseti Ungra umhverfissinna

Valgerður Árnadóttir er formaður Hvalavina verndar hafsins

Þorgerður María Þorbjarnardóttirformaður Landverndar




Skoðun

Sjá meira


×