Skoðun

Við hvað erum við hrædd?

Ingvi Hrafn Laxdal Victorsson skrifar

Það er merkilegt að fylgjast með þeirri spennu sem myndast hefur í kringum fyrirhugaða sameiningu Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst. Ég sat vinnustofu fyrir hönd nemenda þar sem þessi mál voru rædd af alvöru og einlægni. Það sem kom mér mest á óvart var ekki endilega andstaðan sjálf – heldur röksemdirnar (eða skortur á þeim) sem lágu að baki.

Í umræðunni heyrðust setningar eins og „ég er stoltur Akureyringur“ og „ég er stoltur HA-ingur“ – sem eru vissulega fallegar yfirlýsingar – en þegar þær eru notaðar sem skjöldur gegn breytingum, án þess að greina hvað raunverulega er í húfi, þá verður samtalið fljótt tilfinningadrifið og íhaldssamt. Það sem virtist valda mestu reiði var ekki sameiningin sjálf, heldur innviðaskortur: skortur á bílastæðum, húsnæði og aðstöðu. Þetta eru raunveruleg vandamál – en þau tengjast ekki beint þeirri hugmynd að sameina tvær menntastofnanir.

Við verðum að spyrja: Fyrir hverja er verið að sameina? Og af hverju?

Sameining getur skapað tækifæri til að byggja upp öflugri og samkeppnishæfari háskóla – stofnun sem getur boðið fjölbreyttara nám, aukið fjarnám, styrkt rannsóknir og nýsköpun og orðið leiðandi afl í menntamálum á landsbyggðinni. Ef höfuðstöðvar yrðu áfram á Akureyri, væri það ekki niðurlæging heldur uppbygging. En umræðan virðist snúast um nafn og sjálfsmynd – ekki um framtíðarsýn.

Það er eðlilegt að óttast breytingar. Þegar heimsmynd okkar er ógnað, grípum við oft til gamalla gilda og siða. En í stað þess að spyrja „hvað missum við?“ ættum við að spyrja „hvað getum við unnið?“ Við þurfum að leiða með fordæmi – ekki fordómum.

Við verðum að horfa fram á við. Ekki aftur til fortíðar í leit að svörum. Við byggjum ekki framtíðarmenntakerfi á gömlum gildum fyrir kynslóðir sem eiga að leiða þróun mankyns. Í orðum menntamannsins J. Morris: „Ég geri, þú gerir, við gerum.“ Í heimi sundrungar og ótta þurfum við meira á hvort öðru að halda.

Svo ég spyr aftur: Við hvað erum við svona hrædd?

Höfundur er stúdent og kennari við Stapaskóla.




Skoðun

Sjá meira


×