Skoðun

Frelsi, fram­tíð og vist­vænar sam­göngur: Hvers vegna Ís­land þarf að hugsa stærra

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir skrifar

Af hverju ættum við ekki að byggja upp land þar sem samgöngukerfi vistvænna ferðamáta flytur 40–60% af fólkinu sem er á ferðinni um landið? Hvers vegna ætti Ísland ekki að vera fyrirmynd í sjálfbærum samgöngum – með græna ásýnd, frelsi í ferðamáta og samfélag sem styður við framtíðina?

Íslensk stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á orkuskipti í samgöngum – að skipta út bílum knúnum jarðefnaeldsneyti fyrir rafmagnsbíla. Það er þó orðið sífellt augljósara að sú nálgun ein og sér dugar ekki til að ná markmiðum Íslands í loftslagsmálum. Hún er ekki aðeins takmörkuð í áhrifum – hún er líka dýr, ósanngjörn og útilokar raunverulegt frelsi fólks.

Hvar er frelsið fyrir einstaklinginn?

Rannsóknir og reynsla sýna að ungt fólk kýs fjölbreytta ferðamáta – gangandi, hjólandi, samnýtingu og almenningssamgöngur – ef það hefur raunverulegt val. En á landsbyggðinni er valið ekki til staðar. Almenningssamgöngur eru stopular, innviðir fyrir hjól og gangandi vegfarendur ófullnægjandi, og skipulag byggðarinnar oft óhentugt fyrir vistvæna ferðamáta.

Þetta skapar ójafnræði og útilokar fólk frá þátttöku í sjálfbærri framtíð samfélagsins. Ungt fólk sem vill lifa vistvænt þarf að aðlagast kerfi sem krefst bílaeignar – kerfi sem er dýrt, óhagkvæmt og óumhverfisvænt.

Dýrt að einblína á einkabílinn

Á landsbyggðinni er einkabíllinn oft eini raunhæfi ferðamátinn. Þetta hefur leitt til mikillar bílavæðingar sem krefst sífellt meiri fjárfestingar í innviðum – sérstaklega bílastæðum. Sveitarfélög standa frammi fyrir því að þurfa að útvega bílastæði fyrir íbúa, stofnanir og sívaxandi fjölda ferðamanna, án þess að fá nægilegt fjármagn eða stuðning frá ríkinu. Þetta er dýrt, tekur mikið landrými og ýtir undir áframhaldandi notkun einkabílsins.

Þegar horft er til heildarkostnaðar – vegaframkvæmda, viðhalds, bílastæða og orkuskiptatengdra innviða – verður ljóst að einhliða áhersla á einkabílinn er ekki hagkvæm leið til framtíðar.

Hvað þarf að gera?

Í stað þess að einblína á orkuskipti einkabíla þarf að hugsa stærra. Ríkið þarf að ráðast í eftirfarandi aðgerðir:

Samgöngur:

  • Kortleggja flutningsgetu bætta almenningssamgangna
  • Kortleggja flutningsgetu hjólastígakerfis fyrir allt landið
  • Greina legu eldri/ónýttra bílvega fyrir hjólastíga
  • Tryggja að öll framtíðarjarðgöng verði fyrir virka ferðamáta
  • Greina og bæta tengingar milli allra samgöngukerfa, flugvalla, strætó, hjól og fl.

Skipulag:

  • Samþætta alla húsnæðisuppbyggingu við virka ferðamáta.
  • Þétta og blanda byggð í öllu þéttbýli á landinu þar sem net almenningssamgangna getur tengst byggð.

Síðan þarf að fara í átak sem fyrst á eftirfarandi aðgerðum.

  • Auka tíðni strætó og fjölga leiðum
  • Byggja upp net hjólastíga sem tengir saman helstu þéttbýli og allra vinsælustu ferðamannastaðina
  • Byggja upp vandaðar og öflugar stoppistöðvar, e.Transport hub, þar verða fjölbreyttir ferðamátar og þjónusta við fólk í fyrirrúmi. Strætóstoppistöðvar megar ekki vera eins og þær eru í dag. Örsmátt skilti á á staur á bak við bensínstöð. Þær eiga að vera aðlaðandi umhverfi með byggingum og gróðri sem mynda skjól, með kaffihúsi, litlum verslunum, umfangsmiklum upplýsingaskiltum og yfirbyggðum hleðslustæðum fyrir rafmagnshjól.

Áskorun til stjórnvalda

Ég skora á stjórnvöld til að endurskoða forgangsröðun í loftslagsmálum. Orkuskipti eru mikilvæg, en þau verða að fara saman með breytingum á ferðavenjum og uppbyggingu innviða sem gera vistvæna samgöngukosti að raunhæfum valkosti – sérstaklega á landsbyggðinni. Það er ekki nóg að skipta út bensínbílum fyrir rafmagnsbíla; við verðum að skapa samfélag þar sem fólk getur ferðast á sjálfbæran hátt – án þess að þurfa að eiga bíl.

Það er kominn tími til að hugsa stærra. Það er kominn tími til að skapa raunverulegt frelsi.

Höfundur er landslagsarkitekt.




Skoðun

Sjá meira


×