Fótbolti

Minntust Jota og bróður hans á Ballon d'Or

Sindri Sverrisson skrifar
Fyrrverandi liðsfélagar Diogo Jota í Liverpool voru á meðal þeirra sem minntust bræðranna í París í gærkvöld.
Fyrrverandi liðsfélagar Diogo Jota í Liverpool voru á meðal þeirra sem minntust bræðranna í París í gærkvöld. Ballon d'Or

Fjölskylda bræðranna Diogo Jota og André Silva, sem létust í bílslysi á Spáni í sumar, var á meðal gesta á Ballon d‘Or verðlaunahátíðinni í París í gær þar sem bræðranna var minnst.

Ousmane Dembélé og Aitana Bonmatí hlutu stærstu verðlaunin á hátíðinni í gær – Dembélé í fyrsta sinn en Bonmatí þriðja árið í röð.

Á hátíðinni var einnig sérstök minningarstund um þá Diogo Jota og André Silva sem báðir voru fótboltamenn, þó að eldri bróðirinn Jota hafi verið mun þekktari.

Þau Kate Scott og Ruud Gullit voru kynnar kvöldsins á hátíðinni í París í gær og eins og Scott benti á þá var það áfall fyrir allan fótboltaheiminn þegar bræðurnir létust, eftir að dekk sprakk á Lamborghini-bíl þeirra þegar þeir voru að taka fram úr öðrum bíl. Jota var 28 ára gamall og bróðir hans 25 ára.

„Jota var í uppáhaldi hjá stuðningsmönnum og lagði allt í sölurnar fyrir félagið sitt og þjóð, og var dáður jafnt af liðsfélögum sem og stuðningsmönnum,“ sagði Gullit áður en minningarmyndband um bræðurna var sýnt.

Á meðal gesta á hátíðinni voru liðsfélagar Jota úr portúgalska landsliðinu og Liverpool, sem og fjölskylda bræðranna eins og fyrr segir.


Tengdar fréttir

Bonmatí vann þriðja árið í röð

Þriðja árið í röð var Aitana Bonmatí, leikmaður Barcelona og Spánar, valin besta knattspyrnukona heims. Ousmane Dembélé, leikmaður París Saint-Germain og Frakklands, var þá valinn besti knattspyrnumaður í heimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×