Körfubolti

For­ráða­menn KKÍ neita að tjá sig um dómaramálin

Valur Páll Eiríksson skrifar
Davíð Tómas opnaði sig um málið við Vísi í morgun.
Davíð Tómas opnaði sig um málið við Vísi í morgun. vísir/Diego

Forráðamenn Körfuknattleikssambands Íslands munu ekki tjá sig um dómaramál innan hreyfingarinnar að svo stöddu. Gustað hefur um sambandið eftir viðtöl við Davíð Tómas Tómasson og Jón Guðmundsson á Vísi í dag.

Davíð Tómas sagði í viðtali við Vísi í morgun frá því að hann væri hættur dómgæslu 36 ára að aldri en geri það ekki að eigin frumkvæði. Þrátt fyrir að vera einn tveggja alþjóðadómara landsins fær hann ekki verkefni hjá KKÍ, og hefur raunar ekki fengið að dæma leik síðan í mars.

Það er sagt vegna samskiptaörðugleika við dómaranefnd KKÍ sem hefur ekki veitt Davíð áheyrn um margra mánaða skeið, að hans sögn.

„Þetta er ekki uppbyggilegt starfsumhverfi. Þeir sem eru við stjórnvölin hjá KKÍ hafa skapað þessa menningu, sem veldur því að metnaðarfullt fólk hrökklast úr dómgæslustörfum,“ sagði Davíð meðal annars í viðtalinu um starfsumhverfið sem nefndin hefði skapað.

Davíð sé ekki sá eini sem hafi hrökklast úr stéttinni vegna samskipta við nefndina, en Jón Guðmundsson segir svipaða sögu.

„Maður hafði skoðanir á hlutunum og þegar maður varpaði þeim fram fór það misvel í fólk. Ég skil það alveg að menn hafi sitt hvora skoðunina á þessu. En á sínum tíma fannst mér þetta frekar skítt,“ sagði Jón meðal annars.

Ekki hefur náðst í Jón Bender, formann dómaranefndar KKÍ, vegna málsins.

Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, sagði í samtali við íþróttadeild að forráðamenn sambandsins myndu ekki tjá sig um málið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×