Körfubolti

Kemur dómaranefnd til varnar og hnýtir í Jón og tví­burana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rögnvaldur Hreiðarsson hætti dómgæslu fyrir nokkrum árum eftir langan feril með flautuna.
Rögnvaldur Hreiðarsson hætti dómgæslu fyrir nokkrum árum eftir langan feril með flautuna. vísir/bára

Rögnvaldur Hreiðarsson, fyrrverandi körfuboltadómari og meðlimur í dómaranefnd KKÍ til sextán ára, stakk niður penna á Facebook og tjáði sig gagnrýnina á störf dómaranefndarinnar og svarar dómurunum sem fannst þeir settir til hliðar af henni.

Mikið hefur verið rætt og ritað um vinnubrögð dómaranefndar KKÍ eftir að Davíð Tómas Tómasson steig fram og sagði frá ástæðum þess að hann er hættur dómgæslu.

Jón Guðmundsson hafði svipaða sögu að segja af samskiptum við dómaranefnd og í gær tjáðu tvíburarnir Helgi og Sigurður Jónssynir sig um ástæður þess að þeir hættu að dæma.

Fáir hafa dæmt fleiri leiki hérlendis en Rögnvaldur og þá sat hann lengi í dómaranefnd KKÍ. Hann hefur nú tjáð sig um gagnrýnina á störf dómaranefndarinnar. Hann hnýtir í Jón og tvíburana og fer yfir ástæður þess að þeir hættu dómgæslu, þvert á vilja dómaranefndarinnar að hans sögn.

Rögnvaldur segir að tvíburarnir hafi verið mjög frambærilegir dómarar og fengið hraðan framgang. En þeir hafi ekki gert fyrirvara um forföll þegar raðað var niður á leiki og tekið illa í athugasemdir þess efnis. Þá hafi þeir átt í átökum við allavega einn dómara um tilhögun aksturs í leiki.

Rögnvaldur segir að dómaranefnd hafi ekki sett þá Helga og Sigurð út af sakramentinu, heldur hafi þeir sjálfir talið að þeir gætu ekki unnið í þessu umhverfi.

Hvað Jón varðar segir Rögnvaldur hann frábæran dómara og sterkan karakter. Hann hafi hins vegar ekki verið viljugur að dæma leiki í öðrum deildum en þeim efstu þegar hann sneri aftur í dómgæslu fyrir nokkrum árum. Í viðtali við Vísi sagðist Jón hafa komið að lokuðum dyrum hjá dómaranefndinni þegar hann vildi snúa aftur.

Einnig segir Rögnvaldur að dómarar tali ótrúlega illa um dómaranefndir, þótt þeir segi það ekki beint við meðlimi hennar. Hann segir að viðbúið sé að gagnrýni heyrist í umhverfi kappsamra einstaklinga en einhver takmörk séu fyrir hvað menn láti út úr sér.

Rögnvaldur segist jafnframt tilbúinn að ræða undir fjögur augu við þá aðila sem hafa gagnrýnt dómaranefndina. Báðir tvíburarnir hafa sett athugasemd við færslu Rögnvaldar og boðið honum heim til sín að ræða málin. Rögnvaldur hefur ekki brugðist við athugasemdum þeirra.

Færslu Rögnvaldar má sjá hér fyrir neðan.

Í síðustu viku sendi KKÍ frá sér yfirlýsingu vegna gagnrýninnar á störf dómaranefndar. Þar segir að málefni sem snúa að einstaklingum geti verið viðkvæm, þeim þyki miður hvar mál Davíðs sé statt en vill ekki og telur sig ekki vera heimilt til að tjá sig um málefni hans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×