Viðskipti innlent

Ís­land undan­þegið stór­auknum verndar­tollum ESB

Árni Sæberg skrifar
Ursual von der Leyen er forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ursual von der Leyen er forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. EPA

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt til stóraukna verndartolla á innflutning stáls. EES-ríkin Ísland, Noregur og Liecht­enst­ein eru undanþegin tollunum. Íslendingar framleiða ekki stál en hin ríkin tvö flytja lítilræði af stáli til Evrópusambandslanda.

Í tilkynningu á vef Evrópusambandsins segir að framkvæmdastjórnin hafi kynnt tillögur til þess að vernda evrópskan stáliðnað fyrir offramboði stáls á heimsvísu. Það sé nauðsynlegt skref í því að tryggja lífvænleika strategískt mikilvægs iðnaðar.

Helmingstollur á stál

Tillögurnar fylgi þó stefnu sambandsins um frjáls viðskipti og styrki viðskiptasambönd við alþjóðlega samstarfsaðila. Tekist verð á við offramboð með því að takmarka tollalausan innflutning stáls við 18,3 milljónir tonna á ári, sem sé 47 minni tollkvóti en í fyrra, tvöfalda innflutningstolla á stáli í 50 prósent úr 25 prósent, og að efla eftirlit með stálframleiðslu.

„Sterkur, kolefnislaus stáliðnaður er nauðsynlegur samkeppnishæfni Evrópusambandsins, efnahagslegu öryggi og strategísku sjálfstæði. Offramboð á heimsmarkaði er að skaða iðnaðinn okkar. Við verðum að bregðast við samstundis. Ég hvet ráðið og þingið til þess að bregðast við í tæka tíð. Framkvæmdastjórnin mun áfram vinna með iðnaðinum að því að verja og skapa góð störf, og með aðildarríkjum og alþjóðlegum samstarfsaðilum, þar á meðal á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, til þess að finna langtímalausnir á þeim áskorunum sem við deilum,“ er haft eftir Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnarinnar.

Taka mið af stöðu Úkraínu

Þá segir að í ljósi náinnar og einstakrar aðildar að innri markaðinum samkvæmt EES-samningnum, verði innflutningur frá Noregi, Íslandi og Liechtenstein undanþeginn tollkvótum og verndartollum. 

Loks segir að tekið verði mið af hagsmunum innflutningslanda, sem mikil og yfirvofandi hætta steðjar að, til dæmis Úkraínu, þegar tollkvótum verður úthlutað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×