Skoðun

Er verið að blekkja al­menning og sjó­menn?

Einar Hannes Harðarson skrifar

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, hefur undanfarið sagt opinberlega að fræða þurfi almenning betur um sjávarútveginn. Það er sjálfsagt og gott mál – því betra sem fólk skilur hvernig verðmæti verða til í greininni, því betri geta umræðurnar orðið.

Mig langar að nota þennan vettvang til að spyrja Guðmund um einn fróðleiksmola sem birtist á heimasíðu Brims undir fyrirsögninni: „Er Fiskistofa með röng gögn eða eru lagaákvæði óljós?“

Þar segir orðrétt:

„Þorskígildi 10 þúsund tonna af grálúðu eru næstum jafnmörg og þorskígildi 90 þúsund tonna af makríl samkvæmt útreikningum Fiskistofu og því ættu söluverðmætin að vera áþekk […] En svo er alls ekki. Verðmæti 90 þúsund tonna af makríl er þrisvar sinnum meira en verðmæti 10 þúsund tonna af grálúðu.“

Ef ég skil Guðmund rétt þá fullyrðir hann að verðmæti 10 þúsund tonna afla af grálúðu og 30 þúsund tonn afla af makríl sé svipað.

Við hjá stéttarfélögum sjómanna vitum hins vegar að raunveruleikinn er allt annar. Á sama tíma og Guðmundur skrifar þetta er munurinn á kílóverði til sjómanna á þessum tveimur tegundum nálægt því tífaldur.

Sjómenn fá allt upp undir 1.000 krónur á kíló fyrir grálúðu – en á síðustu makrílvertíð greiddi Brim sínum sjómönnum að meðaltali 114 krónur á kíló.

Ef markmið fróðleiksmolans er að sýna fram á ósamræmi í útreikningum Fiskistofu, þá hlýtur ósamræmið að vera enn meira í verðmynduninni sjálfri. Ef þorskígildi eiga að endurspegla verðmæti, og ef sjómenn fá aðeins greitt brot af því sem markaðsverð segir til um, þá hlýtur að vakna spurningin:

Er raunverulega verið að blekkja Fiskistofu – eða sjómennina – ásamt því að verið sé að komast undan skatttekjum af sameiginlegum auðlindum?

Einnig má spyrja hvort lagaákvæðin séu óljós. Eða hefur útgerðin einfaldlega náð þeim tökum á verðmyndun í gegnum sölufélög og skúffufyrirtæki að hægt sé að flytja verðmæti til, án þess að sjómenn fái sinn sanngjarna hlut?

Miðað við tölurnar sem Brim birtir sjálft – og greiðslur sem sjómenn fá í reynd – þá virðast sjómenn vera hlunnfarnir um allt að tvo þriðju af verðmæti fisksins sem þeir veiða.

Ég sé ekki annað.

Höfundur er formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur.




Skoðun

Sjá meira


×