Skoðun

Skólamáltíðir í Hafnar­firði. Af hverju bauð enginn í verkið?

Davíð Arnar Stefánsson skrifar

Það vakti athygli mína í sumar þegar Hafnarfjarðarbær birti tilkynningu á heimasíðu sinni um að samið hefði verið við fyrirtækið Í-mat ehf. um skólamáltíðir fyrir alla leik- og grunnskóla bæjarins og frístundaheimilin í bænum. Góðar fréttir enda mikilvægt að börnum sé boðið upp á hollan og góðan mat í skólum að kostnaðarlausu fyrir foreldra. En það sem vakti athygli mína var það sem ekki kom fram í tilkynningunni, þ.e. hvernig kom það til að samið var við þetta tiltekna fyrirtæki um þjónustuna og hvert væri innihald samningsins.

Með krókaleiðum má komast að því að bæjaryfirvöld hafa í raun þagað þunnu hljóði yfir þeirri staðreynd að ekkert fyrirtæki virðist hafa séð hag sinn í að bjóða í verkið. Það vekur upp spurningar enda er um að ræða eitt stærsta þjónustuútboð ef ekki hreinlega það stærsta sem þriðja stærsta sveitarfélag landsins hefur ráðist í:

Voru útboðsskilmálar óljósir eða óraunhæfir?

Hvernig kom það til að samið var við lítið og reynslulaust fyrirtæki um svo stórt og viðmiðamikið verkefni, var það að frumkvæði bæjaryfirvalda eða eigenda fyrirtækisins?

Var fleiri fyrirtækjum boðið til viðræðna?

Lög um opinber innkaup eru skýr um gagnsæi við innkaup opinberra aðila. Í því ljósi er auðvitað ámælisvert fyrir Hafnarfjarðarbæ að kynna ekki betur svo stóran og kostnaðarsaman samning en gera má ráð fyrir að hann hlaupi á milljörðum ef ekki tugum milljarða króna á samningstímanum. Þá vekur furðu að ekkert skuli heyrast frá kjörnum fulltrúum um málið, hvorki fulltrúum meirihlutans né fulltrúum minnihlutans í bæjarstjórn.

Um leið og samningsaðilum er óskað velgegni í samstarfinu er hér með kallað eftir því að bærinn upplýsi um aðdraganda þess að gengið var til samninga við umrætt fyrirtæki og kynni innihald samningsins fyrir bæjarbúum.

Höfundur er oddviti VG í Hafnarfirði.




Skoðun

Sjá meira


×