Sport

„Við ætlum auð­vitað að vinna þetta allt“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Isabella Ósk SIgurðardóttir var öflug fyrir Grindavík í kvöld.
Isabella Ósk SIgurðardóttir var öflug fyrir Grindavík í kvöld. Vísir / Pawel Cieslikiewicz

Grindavík eru taplausar á toppi deildarinnar eftir öflugan sautján stiga sigur gegn Haukum í kvöld 68-85. Isabella Ósk Sigurðardóttir kom virkilega öflug inn af bekknum í liði Grindavíkur og skoraði 19 stig.

„Mjög flottur liðssigur. Mér fannst við ná að brjóta pressuna þeirra vel“ sagði Isabella Ósk Sigurðardóttir eftir sigurinn í kvöld.

„Við vorum að fá galopinn sniðskot, opin skot og bara flottur liðssigur“

Það var ágætis jafnræði með liðunum lengst af en þó var Grindavík alltaf skrefinu á undan. Í fjórða leikhluta tók Grindavík svo yfir og hljóp með leikinn.

„Það var kannski bara einhver auka orka sem að við fengum. Mér fannst við vera með leikinn allan tíman þó svo að þetta hafi verið frekar jafnt“

„Við gáfum svo bara í og þau höfðu enginn svör“ sagði Isabella Ósk Sigurðardóttir.

Grindavík braut pressuna vel hjá Haukum í kvöld og var það lykillinn af góðum sigri hér í kvöld.

„Ég held bara hvernig við brutum pressuna hjá þeim. Lið hafa verið að ströggla með það alltaf og ég held að það hafi verið svona aðal ástæðan“

Grindavík hefur byrjað virkilega vel og unnið fyrstu þrjár umferðir í Bónus deild kvenna og sitja á toppi deildarinnar eftir leikinn í kvöld.

„Þetta eru náttúrulega bara fyrstu þrír leikirnir. Það segir ekkert mikið, kannski telur í framhaldið en við ætlum auðvitað að vinna þetta allt“ sagði Isabella Ósk Sigurðardóttir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×