Fótbolti

Vig­dís Lilja lagði upp sigur­markið þegar allt stefndi í vító

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir var með tvær stoðsendingar fyrir Anderlecht í kvöld.
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir var með tvær stoðsendingar fyrir Anderlecht í kvöld. Getty/Aitor Alcalde

Vigdís Lilja Kristjánsdóttir og félagar hennar í belgíska liðinu Anderlecht komust í kvöld áfram í sextán liða úrslit Evrópubikarsins eftir útisigur á Braga í framlengdum Íslendingaslag.

Anderlecht vann leikinn 3-2 og þar með 4-3 samanlagt en 1-1 jafntefli varð í fyrri leiknum í Belgíu.

Vigdís Lilja átti risaþátt í sigrinum en hún lagði upp tvö af þremur mörkum belgíska liðsins í leiknum þar á meðal sigurmarkið á 120. mínútu.

Guðrún Arnardóttir, Ásdís Karen Halldórsdóttir og félagar þeirra í Braga komust yfir í framlengingunni en það dugði ekki til því Belgarnir skoruðu tvö síðustu mörkin í leiknum. Allar íslensku stelpurnar voru í byrjunarliðum sinna liða.

Malu Schmidt kom Braga yfir á átjándu mínútu með marki úr vítaspyrnu en Luna Vanzeir jafnaði fyrir Anderlecht rétt fyrir hálfleik eftir stoðsendingu frá Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur.

Ekkert var skorað í seinni hálfleik og því þurfti að framlengja því fyrri leikurinn endaði einnig með 1-1 jafntefli.

Cristiana Vieira skoraði fyrir Braga á 95. mínútu eftir stoðsendingu frá Malu Schmidt.

Amélie Delabre skoraði síðan tvívegis í framlengingunni, fyrst á 105. mínútu og svo á 120. mínútu eftir sendingu Vigdísar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×