Skoðun

Takk Vig­dís! Takk Guðni! Takk Halla! — Takk þjóð!

Hjörtur Hjartarson skrifar

Merkilegasta skjal í sögu Íslands bíður þess að verða virkjað. Nýja stjórnarskráin, sem svo er nefnd í daglegu tali, varð til í einu „víðtæk­asta og lýðræðislegasta stjórnarskrárferli sem vitað er um,“ eins og Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands 1980-1996, komst að orði. Vigdís hélt áfram og sagði: „Að mínu mati hefur íslenska þjóðin beðið nógu lengi eftir nýrri stjórnarskrá.“ — Takk Vigdís!

Núverandi forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, talaði í framboði sínu á svipuðum nótum og Vigdís: „... ég held að það myndi hjálpa okkur að byggja upp traust í samfélaginu ef við myndum virða þetta fallega ferli sem, að mínu mati, fer af stað 2009 og heldur svo áfram með þjóðinni.“ — Takk Halla!

Við blasir tækifæri fyrir nýtt fólk á valdastólum til að ganga hreint til verks, af hugrekki og heilindum og ljúka þessu fallega ferli. Það yrði mikil blessun fyrir íslenskt samfélag.

Hrunið á Íslandi árið 2008 var með stórum staf. Ekki aðeins bankarnir hrundu til grunna, heldur varð hér pólitískt og siðferðilegt hrun. Almenningur gerði uppreisn og hrakti ríkisstjórn frá völdum með miklum látum, en það var aðeins fyrsta vers. Fólkið í landinu átti líka friðsamlegt, uppörvandi og skapandi svar við Hruninu. Það samdi sér nýja stjórnarskrá. Fyrir það á fólkið skilið virðingu en ekki óheilindi. — Takk þjóð!

Alþingi ályktaði einum rómi 2010, með öllum 63 atkvæðum greiddum, „að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.“ Það voru viðbrögð þingsins við skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið. Í þessari sömu þingsályktun kom fram að endurskoða skyldi stjórnarskrá landsins. Fyrirheit um það höfðu reyndar verið gefin almenningi við stofnun lýðveldisins 1944 en ekki var staðið við þau, líkt og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands 2016-2024, hefur rakið skilmerkilega. — Takk Guðni!

Til að gera langa sögu stutta, þá fól Alþingi almennum borgurum, í gegnum svokallað stjórnlagaráð, að koma með tillögu að nýrri og endurskoðaðri stjórnarskrá. Þar með var hafið það ferli sem Vigdís nefnir „víðtækasta og lýðræðislegasta stjórnarskrárferli sem vitað er um.“ Og Vigdís var alls ekki ein um þá skoðun. Margir helstu stjórnlagafræðingar heimsins voru sama sinnis og fóru líka lofsamlegum orðum um niðurstöðu ferlisins, nýju stjórnarskrána.

Alþingi fékk umbeðna tillögu að nýrri og endurskoðaðri stjórnarskrá afhenta á tilsettum tíma frá stjórnlagaráðinu. Það var sumarið 2011. Alþingi boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillöguna 20. október 2012. Yfir 2/3 hlutar kjósenda (66,9%) samþykktu að tillagan sem fyrir þá var lögð skyldi verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár landsins.

Alþingi hefur ekki enn virt úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýja stjórnarskrá. Til samanburðar má nefna að níu mánuðum eftir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit, úrsögn Bretlands úr ESB, hafði breska þingið staðfest naum úrslit atkvæðagreiðslunnar, jafnvel þótt meiri hluti þingsins væri í raun andsnúinn niðurstöðunni. — Í lýðræðisríkjum verður að virða úrslit kosninga.

Í áðurnefndri þingsályktun frá 2010 sagði einnig: „Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu ... .“ Svo virðist sem enn vanti upp á lærdóminn af hruninu. Góðu fréttirnar eru þær að það er aldrei of seint að bæta ráð sitt, en þörfin á því er orðin knýjandi.

„Stjórnarskrár eiga að vera skýrar en þannig er bráðabirgðasmíðin frá1944 ekki, enda hefur hún engum orðið fyrirmynd og engin áhrif haft annars staðar í heiminum.“ Guðni Th. Jóhannesson er ekki einn um þessa skoðun. Þessir veikleikar stjórnarskrárinnar eru á allra vitorði. Við búum við úrelta stjórnarskrá þótt við eigum aðra nútímalega og næstum fullfrágengna. Þögnin um þá staðreynd lætur hátt í eyrum og stundum er hún næstum hlægileg. En stundum minna fyndin.

Það vekur vonir hjá fólki að komin skuli til valda ríkisstjórn sem virðist þora að standa með þjóðinni, með hagsmunum almennings gegn sérhagsmunum. Nýlega samþykkt breyting á lögum um veiðigjald vitnar um það og er mikilvægur áfangi á leið fólksins í landinu til yfirráða yfir fiskveiðiauðlind sinni. Áform ríkisstjórnarinnar um auðlindaákvæði í stjórnarskrá verða að ná fram að ganga ef tryggja á þjóðinni varanleg yfirráð yfir auðlindum sínum og réttlátan arð af þeim. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru fljótir til eftir alþingiskosningar 2013 og lækkuðu veiðigjöldin. Sú saga mun endurtaka sig ef núverandi meirihluti á Alþingi sér ekki til þess að réttur almennings verði varinn í stjórnarskrá. Margt knýr á um stjórnarskrárbreytingar.

  • Hvar erum við stödd með okkar lýðræði? Ef Alþingi virðir ekki úrslit þjóðar–atkvæðagreiðslu sem það boðaði til um nýja stjórnarskrá, hvað er þá að marka þjóðaratkvæðagreiðslu sem það boðar til um framhald aðildarviðræðna við ESB?
  • Viðræður um aðild að ESB ætti ekki að hefja á ný fyrr en búið verður að tryggja óskoruð yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum landsins í stjórnarskrá. Fáir munu láta segja sér að það skipti ekki máli.
  • Landskjörstjórn kallar eftir margvíslegum stjórnarskrárbreytingum á kosninga–ákvæðum í stjórnarskrá og segir brýnt að bregðast við dómi Mannréttinda–dómstóls Evrópu frá 2024 um brot Íslands gegn réttinum til frjálsra kosninga.
  • Ef kjósendur eiga að geta neytt réttar síns og greitt atkvæði með eða á móti inngöngu í ESB, ef til þess kemur, þarf að breyta stjórnarskrá.

Tekið er á öllum ofangreindum atriðum í nýju stjórnarskránni. Tillögurnar sem samþykktar voru í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 fela í sér vandlega uppfærða, nútímalega og heildstæða stjórnarskrá sem samin var af landsmönnum sjálfum. Og Alþingi er komið langleiðina í mark. Í október 2020 lögðu þingmenn Pírata og Samfylkingar fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá, samhljóða frumvarpi því sem lá fyrir þaulunnið og fullfrágengið af hálfu Alþingis í mars 2013, en með ítarlegri greinargerð. Töldu flutningsmenn að með framlagningu frumvarpsins mætti með réttum hætti halda áfram og ljúka vinnu við frumvarpið. Stjórnarskrármálið er því ekki á byrjunarreit heldur nálægt lokametrunum.

„Þetta er handónýt stjórnskipun að hluta,“ sagði Eiríkur Tómasson, lagaprófessor og lengi kennari í stjórnskipunarrétti, í mjög merkilegu sjónvarpsviðtali skömmu eftir hrun. Þá var stund sannleikans. Við sitjum enn uppi með þessa ónýtu stjórnskipun. Eiríkur sagði það standa landinu fyrir þrifum að búa við úrelta stjórnarskrá og spurði: „Við hvað eru menn alltaf svona hræddir hér á Íslandi?“

Í stjórnmálum landsins blasir við sögulegt tækifæri til að hugsa stórt, sýna hugrekki og framsýni og leggja lokahönd á samþykktar tillögur að nýrri stjórnarskrá. Afgreiða þær af virðingu við kjósendur og lýðræðislega niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012. Það mætti til dæmis gera með slembivöldu stjórnlagaþingi. Stjórnarskrárfélagið hefur í þessu sambandi talað um Ragnars-prófið, viðmið um verklag sem Ragnar Aðalsteinsson lögmaður útlistaði svo:

„Ákvæði Stjórnlagaráðs var samið af óháðum og sjálfstæðum fulltrúum, sem þjóðin hafði til þess kjörið, og Alþingi svo skipað eftir ógildingu Hæstaréttar á grundvelli formsatriða. Ráðið vann verkefnið fyrir opnum tjöldum og tók sjónarmiðum almennings opnum örmum og gaumgæfði þau. Ráðsmenn komust að sameigin–legum niðurstöðum um efni og orðalag nýrrar stjórnarskrár fyrir landið. Stjórnar–skrárfrumvarpið var þannig samið á lýðræðislegan hátt. Þeim, sem hafa hug á að endursemja og breyta tillögum ráðsins, er vandi á höndum, því færa má að því rök að þeir, sem það reyna, verði að færa á það ótvíræðar sönnur að breytingartillögur þeirra séu betur til þess fallnar að treysta almannahag en tillögur ráðsins.“

Tilmæli Feneyjanefndar Evrópuráðsins til íslenskra stjórnvalda haustið 2020 ríma við verklagið sem Ragnar leggur til og forsendurnar eru þær sömu. Nefndin segir að yrði vikið efnislega frá því sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 þyrftu stjórnvöld að gefa almenningi gegnsæjar, skýrar og sannfærandi ástæður fyrir því.

Þetta er einföld, sanngjörn og lýðræðisleg forskskrift.

Fátt er dýrmætara í stjórnmálum en að þekkja sinn vitjunartíma. Nú er runninn upp sá tími hjá þingmönnum og ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Sýnið hugrekki og takið til við stjórnarskrármálið af heilindum. Ljúkið því fallega. Þið munið hrífa þjóðina með ykkur.

Höfundur er í stjórn Stjórnarskrárfélagsins.




Skoðun

Sjá meira


×