Körfubolti

Stólarnir skotnir niður á jörðina í Tékk­landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Taiwo Badmus skoraði 9 stig í kvöld en hitti aðeins úr 4 af 15 skotum sínum.
Taiwo Badmus skoraði 9 stig í kvöld en hitti aðeins úr 4 af 15 skotum sínum. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Sigurganga Tindastóls endaði í Tékklandi í kvöld þegar liðið steinlá á móti BK Opava í Norður-Evrópukeppni félagsliða í körfubolta.

Tindastóll hafði unnið fimm fyrstu leiki sína á tímabilinu sannfærandi þar af fyrstu tvo leiki sína í Evrópu.

Stólunum var hins vegar skellt niður á jörðina í þessum leik því tékkneska liðið vann 27 stiga sigur, 95-68.

Tékkarnir voru komnir í 23-8 eftir sjö mínútur, leiddu með fimmtán stigum eftir fyrsta leikhluta, 28-13, og með 21 stigi í hálfleik, 56-35.

Wesley Person Jr. var erfiður enda kominn með 24 stig í hálfleik á móti aðeins 35 stigum frá öllu Stólaliðinu.

Stólarnir bitu aðeins frá sér í þriðja leikhluta en það dugði skammt og heimamenn kláruðu leikinn sannfærandi.

Person endaði með 32 stig og skoraði átta þrista úr aðeins níu tilraunum.

Ivan Gavrilovic var stigahæstur hjá Tindastóls með 13 stig en Davis Geks skoraði 11 stig og Júlíus Orri Águstsson var með 10 stig.

Júlíus var sá eini í byrjunarliði Stólanna með tíu stig en liðið fékk aðeins 36 stig samanlagt frá byrjunarliðinu í þessum leik í kvöld.

Stólarnir hittu aðeins úr 8 af 35 þriggja stiga skotum sínum sem þýðir aðeins 22 prósent nýting fyrir utan þriggja stiga línuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×