Sport

Betri en allar konur í sögu bak­garðs­hlaupanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sarah Perry setti nýtt heimsmet á HM í bakgarðshlaupum.
Sarah Perry setti nýtt heimsmet á HM í bakgarðshlaupum. @sarahperry19917

Sarah Perry tókst að slá heimsmet kvenna á heimsmeistaramótinu í bakgarðshlaupum en hún lauk keppni eftir næstum því fjögurra sólarhringa keppni.

Perry hafði verið önnur tveggja kvenna sem slógu gamla heimsmetið með því að fara hring númer 88. Ungverjinn Edit Fűrész hljóp lengi með þeim en entist ekki jafnlengi.

Með henni var bandaríska konan Megan Eckert sem átti gamla heimsmetið. Þær Perry og Eckert slógu því heimsmet kvenna í hverjum hring eftir það.

Eckert kláraði á endanum 92 hringi en varð síðan að hætta keppni.

Perry hélt áfram og endaði á því að fara þrjá í viðbót eða alls 95 hringi.

Hún hljóp því streitulaust í 95 klukkutíma og fór alls 637 kílómetra.

Perry, sem er bresk, bætti sitt eigið persónulega met um 36 hringi sem er mögnuð bæting en gamla metið hennar var 59 hringir.

Keppnin hjá henni byrjaði á laugardegi en lauk síðan í hádegi á miðvikudegi.

Perry var því næstum því fjóra sólarhringa á hlaupum.

Níu karlar voru enn að hlaupa í keppninni þegar Perry hætti keppni. Það er einum meira en árið 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×