Skoðun

Ég hef…

Karólína Helga Símonardóttir skrifar

Ég hef…

…orðið fyrir kynbundnu ofbeldi.

…gengið heim í myrkri með lykil í lófanum.

…brosað þegar ég vildi öskra.

…upplifað loddaralíðan (e. imposter syndrome) í marga áratugi.

…hikað við að segja „nei“ af ótta við reiði.

…heyrt setningar eins og „það var bara grín“ og „þú tekur þessu of nærri þér“.

…hætt við að sækjast eftir ábyrgðarstöðum vegna þess að ég sé ung kona.

…skilað af mér meira vinnuframlagi en karlkyns samstarfsmaður en fengið skammir vegna þess að ég gat ekki unnið yfirvinnu.

…verið sökuð um að vera leiðinleg fyrir að setja mörk.

…verið hafnað um stjórnunarstöðu vegna þess að ég var ung kona.

…orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi.

… verið kölluð tuðari.

…orðið fyrir kynbundnum launamun.

…lært að forðast frekar en að krefjast.

…þurft að berjast fyrir sjálfri mér.

…lært að þegja frekar en að tala.

Ég hef þagað.

Ég hef lifað.

Ég tala nú.

Meiri hluti af þessu óréttlætis sem ég varð fyrir átti sér stað þegar ég var ung kona. Á þeim tíma hefði ég aldrei viðurkennt neitt af þessu, því ég vildi ekki sýna veikleika. Ég vil ekki að aðrar ungar konur, dætur mínar eða aðrir sem tilheyra minnihlutahópum þurfi að upplifa óréttlæti.

Þetta er ekki bara barátta okkar, heldur ábyrgð alls samfélagsins!

Styðjum konur og kvár á föstudaginn.

Höfundur er kona, móðir og manneskja sem þegir ekki lengur.




Skoðun

Skoðun

Ég hef…

Karólína Helga Símonardóttir skrifar

Sjá meira


×