Innlent

Öku­maðurinn ungur og líðan hans góð „eftir at­vikum“

Agnar Már Másson skrifar
Ungur maður undir tvítugu var við stýri.
Ungur maður undir tvítugu var við stýri. Aðsend

Líðan unga ökumannsins sem lenti í sjónum á Ísafirði í gærkvöldi er góð eftir atvikum, að sögn lögreglu. Hann var í sjónum skemur en hálftíma og var einn í bílnum.

Ungur maður var fluttur með sjúkraflugi frá Ísafirði til Reykjavíkur eftir að bíll hafnaði í sjónum við Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði á tíunda tímanum í kvöld.

„Hann er á sjúkrahúsi í Reykjavík og er í læknishöndum þar,“ segir Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum.

Hlynur segir að líðan ökumannsins sé góð „eftir atvikum“. Ökumaðurinn sé yngri en tvítugt.

Ökumaðurinn var einn í bílnum. Hlynur segir að viðbragðsaðilar hafi híft ökumanninn upp úr vatninu en hann hafi verið í sjónum. Björgunarstarf gekk vel að sögn Hlyns, sem hrósar viðbragðsaðilum.

Ekki er vitað nákvæmlega hversu lengi ökumaðurinn var í vatninu eftir en talið er að það hafi verið innan við hálftíma. Björgunarbátur, björgunarsveitarmenn, slöngubátar, kafarar og kranar hafa verið ræstir út.

Hann segir að nokkur vitni hafi orðið að slysinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×