Körfubolti

„Við þurfum að vera betri varnarlega“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arnar Guðjónsson er viss um að Ægir Þór Steinarsson verði með Stjörnunni í kvöld og vill sjá Tindastól herða varnarleikinn.
Arnar Guðjónsson er viss um að Ægir Þór Steinarsson verði með Stjörnunni í kvöld og vill sjá Tindastól herða varnarleikinn. pawel

Tindastóll tekur á móti Stjörnunni á Sauðárkróki í kvöld. Liðin mættust síðast í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn og Stólarnir eru fullir tilhlökkunar að hefna þeirra hörmuna, en verða að bæta varnarleikinn að mati þjálfarans.

Arnar Guðjónsson er þjálfari Tindastóls og mætir fyrrum félögum í kvöld. Hann var þjálfari Stjörnunnar um árabil, áður en hann hætti eftir tímabilið 2023-24.

Stjörnuliðið hefur tekið töluverðum breytingum síðan þá og Arnar segir enga sérstaka spenna fylgja því að mæta Stjörnunni.

„Það er spenna fyrir öllum leikjum. Það er nú þannig með þessu vinnu, þetta er yfirleitt helvíti gaman, þannig að það er alltaf tilhlökkun fyrir hverjum leik. Sama hver andstæðingurinn er.

Ægir og Orri eru þeir einu í liðinu sem voru einhvern tímann hjá mér og einhverjir yngri flokka strákar líka.

Það er spenna auðvitað að mæta Íslandsmeisturunum og einu af betri liðum deildarinnar, en ekkert sérstaklega af því þetta er Stjarnan“ sagði Arnar í samtali við Vísi.

Viss um að Ægir verði með Stjörnunni

Íslandsmeistarar Stjörnunnar hafa ekki farið vel af stað á þessu tímabili og tapað þremur af fyrstu fjórum leikjunum. Landsliðsfyrirliðinn Ægir Þór Steinarsson var ekki með í síðasta leik gegn ÍR, en Arnar er viss um að hann keppi í kvöld og segir gengi Stjörnunnar upp á síðkastið ekki skipta öllu máli.

„Ég held að það skipti ekki alveg öllu máli hvernig síðustu leikir hafa farið hjá þeim. Svo er auðvitað svolítill munur á því hvort Ægir verður með þeim eða ekki og ég efast ekki um að hann spili í kvöld. Það hefur svolítið mikið að segja, hvort einn besti kallinn í deildinni er með eða ekki“ sagði Arnar og ítrekaði að hann væri fullviss um að Ægir yrði með í kvöld.

Ragnar verður ekki með í kvöld

Tindastóll verður hins vegar ekki með fullskipað lið. Leikjaálagið undanfarið er ekki ástæðan fyrir því, Ragnar Ágústsson fékk högg á lærið í síðasta leik gegn Njarðvík.

„Hann verður ekki með okkur, hann fékk hné í læri tvisvar á móti Njarðvík, beinmar og bólgur sem halda honum frá vellinum. Sem er djöfull fúlt, hann er búinn að vera góður fyrir okkur í vetur, en það stíga bara einhverjir aðrir upp á móti.“

Vill bæta varnarleikinn

Njarðvíkingar tóku Ragnar ekki einungis úr leik heldur afhentu þeir Tindastóli fyrsta tap tímabilsins.

„Mér fannst við byrja leikinn illa varnarlega og það komu augnablik sóknarlega þar sem menn voru sjálfhverfir. Það lagaðist talsvert, allavega sóknarleikurinn, á móti Hetti [í 98-125 stórsigri 16-liða úrslitum VÍS bikarsins fyrr í vikunni].

En það eru alltaf einhverjir hlutir sem maður vill bæta milli leikja og við þurfum að vera betri varnarlega í kvöld en við vorum í Njarðvíkurleiknum“ sagði Arnar.

Mikil tilhlökkun á Króknum

Síðasti keppnisleikur Tindastóls og Stjörnunnar var oddaleikur um Íslandsmeistaratitilinn, sem Stjarnan vann í vor. Stólarnir og samfélagið á Sauðárkróki vill eflaust hefna fyrir það í kvöld.

„Sigur í deildarleik hefnir svosem ekki fyrir tap í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn, en það er engin spurning að það er spenna og tilhlökkun fyrir þessum leik. Liðin kepptu ansi vel hérna síðasta vor, þannig að það er mikil tilhlökkun hjá okkar fólki fyrir þessum leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×