Körfubolti

NBA-goðsögnin Lenny Wilkens látin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lenny Wilkens átti magnaðan feril sem bæði leikmaður og þjálfari og var einn sá virtasti í NBA-fjölskyldunni.
Lenny Wilkens átti magnaðan feril sem bæði leikmaður og þjálfari og var einn sá virtasti í NBA-fjölskyldunni. Getty/Steph Chambers

NBA-deildin í körfubolta hefur misst eina af goðsögnum sínum. Lenny Wilkens lést í gær 88 ára að aldri en hann var tekinn inn í heiðurshöll körfuboltans bæði sem leikmaður og þjálfari.

Á fimmtán ára leikmannaferli sínum var Wilkens níu sinnum valinn í stjörnuliðið og var tvisvar sinnum með flestar stoðsendingar í deildinni. Wilkens, sem hafði einstakan leikskilning, var spilandi þjálfari í fjögur tímabil, þrjú með Seattle SuperSonics og eitt með Portland Trail Blazers, áður en hann sneri sér alfarið að þjálfun.

Hann leiddi Sonics til NBA-meistaratitilsins árið 1979 og var valinn þjálfari ársins árið 1994.

Wilkens vann 1332 leiki sem þjálfari, það þriðja mesta frá upphafi en það gerði hann sem þjálfari Sonics, Trail Blazers, Cleveland Cavaliers, Atlanta Hawks, Toronto Raptors og New York Knicks áður en hann lét af störfum árið 2005. Hann þjálfaði í 2487 leikjum, sem er met í sögu NBA. Hann vann einnig Ólympíugull sem þjálfari bandaríska liðsins árið 1996.

Hann er einn af aðeins fimm mönnum sem hafa verið teknir inn í Naismith-frægðarhöll körfuboltans bæði sem leikmaður og þjálfari, ásamt þeim John Wooden, Bill Sharman, Tom Heinsohn og Bill Russell.

„Lenny Wilkens var holdgervingur þess besta í NBA – sem leikmaður í frægðarhöllinni, þjálfari í frægðarhöllinni og einn virtasti sendiherra íþróttarinnar,“ sagði Adam Silver, framkvæmdastjóri NBA, í yfirlýsingu á sunnudag. „Svo mjög að fyrir fjórum árum hlaut Lenny þann einstaka heiður að vera útnefndur einn af 75 bestu leikmönnum og 15 bestu þjálfurum deildarinnar allra tíma.“

Árið 1995 setti Wilkens met sem hann hélt að myndi standa að eilífu þegar hann fór fram úr Red Auerbach, þjálfara Boston Celtics, sem sigursælasti þjálfari deildarinnar frá upphafi. Hann fagnaði auðvitað með vindli.

„Hann var fyrirmyndin mín og þess vegna kveikti ég í þessum vindli,“ sagði Wilkens. „Ég hafði aldrei reykt vindil á ævinni, þú veist, og ég kveikti í honum og kafnaði næstum því, en ég vildi gera það til að heiðra minningu Red Auerbach,“ sagði Wilkens.

Don Nelson fór síðar fram úr Wilkens og Gregg Popovich hefur síðan farið fram úr þeim báðum og lauk ferlinum með 1388 sigrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×