Viðskipti innlent

Ráðinn sköpunar­stjóri Hvíta hússins

Atli Ísleifsson skrifar
João Linneu.
João Linneu. Aðsend

Auglýsingastofan Hvíta húsið hefur ráðið João Linneu í stöðu sköpunarstjóra (e. Creative Director).

Í tilkynningu segir að João Linneu sé með áratuga reynslu að baki úr auglýsingabransanum víðs vegar um heim. 

„Hann hefur unnið með fremstu auglýsingastofum Suður-Ameríku og víðar og unnið verkefni fyrir stærstu hönnunar- og auglýsingastofur heims, eins og Ogilvy og Saatchi & Saatchi.

João hefur sérhæft sig í vörumerkjauppbyggingu og stórum herferðum sem ætlað er að ná víðtækri dreifingu til breiðs markhóps. Á ferli sínum hefur hann unnið að verkefnum fyrir þekkt vörumerki víða í Evrópu auk þess hefur hann unnið fyrir helstu vörumerki Suður-Ameríku og Brasilíu sérstaklega. João hefur þegar hafið störf og nýlega hélt hann erindi á haustráðstefnu Ímark, þar sem hann lýsti sinni persónulegu sýn á vörumerki og vörumerkjauppbyggingu,“ segir í tilkynningunni. 

Haft er eftir Elínu Helgu Sveinbjörnsdóttur, framkvæmdastjóra Hvíta hússins, að það sé ekki á hverjum degi sem maður fái tækifæri til að ráða manneskju með viðlíka reynslu. „João hefur á sínum starfsferli náð miklum árangri í erfiðu samkeppnisumhverfi og við teljum að reynsla hans og sérfræðikunnátta muni gagnast íslenskum fyrirtækjum vel. Það verður spennandi að fylgjast með störfum hans og hvernig hann mun setja mark sitt á íslenskan markað,“ segir Elín Helga. 

Þá er haft eftir João Linneu að íslenskur markaður sé spennandi áskorun. „Ég hef búið hér um nokkurn tíma og hef því náð að kynnast menningu og samfélaginu vel. Hér er öflugt viðskiptalíf en á sama tíma náið umhverfi því er mikilvægt að leysa hvert verkefni með virðingu fyrir sérstöðu og uppruna. Ég hlakka til að vinna að því að leysa sköpunarkraftinn úr læðingi og sjá hvað við getum skapað saman hér á Hvíta húsinu,“ segir João Linneu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×