Fótbolti

„Það var kominn tími til að ég myndi skora eitt mark“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Sverrir Ingi Ingason var sáttur að ná loksins inn marki.
Sverrir Ingi Ingason var sáttur að ná loksins inn marki. Aziz Karimov/Getty Images

Íslenska landsliðið sigraði Aserbaísjan í Bakú í kvöld 0-2. Sverrir Ingi Ingason skoraði seinna mark Íslands og það var ekki af verri gerðinni.

„Það var kominn tími til að ég myndi skora eitt mark. Ég byrjaði sjóðheitur á sínum tíma með landsliðinu en ég held það séu komin nokkur ár síðan ég skoraði síðasta landsliðsmarkið. Þannig það var kærkomið að skora í dag, “ sagði Sverrir Ingi Ingason, annar markaskorara Íslands eftir leikinn í kvöld.

Frammistaða liðsins í fyrri hálfleik var frábær og fékk liðið nokkur tækifæri til þess að bæta við mörkum.

„Það var sætt að sjá boltann í markinu. Við vorum með öll völd og fengum færi til þess að skora. Það var mikilvægt að skora þetta seinna mark til þess að gefa okkur smá andrými. Við gerðum þetta svo bara fagmannlega í seinni hálfleik, en við höfum oft spilað betur.“

„Við erum búnir að skora mark í nánast hverjum einasta landsliðsglugga eftir fast leikatriði. Það er samt yfirleitt Gulli sem skorar, þannig það var kominn tími að ég skori eitt. Við sýnum það að við getum skorað mörk í öllum regnbogalitum í þessum leikjum og það er mjög sterkt að vera með mörg vopn.“

Aserar stigu ofar á völlinn í síðari hálfleik og voru mistök úr vörn og marki Íslands sem hefðu getað kostað liðið

„Það voru nokkur augnablik þar sem við gefum þeim möguleika á að skora, af okkur eigin mistökum. Við verðum að gera betur fyrir leikinn á sunnudaginn. Við erum að fara spila við sterkan andstæðing þá og þeir geta refsað okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×