Fótbolti

Spánn og Austur­ríki við það að komast á HM ´26

Árni Jóhannsson skrifar
Spánverjar fagna í eitt af fjórum skiptum gegn Georgíu í dag.
Spánverjar fagna í eitt af fjórum skiptum gegn Georgíu í dag. Vísir / Getty

Fjórum leikjum er nýlokið í undankeppni fyrir HM 2026. Má segja að allt hafi farið eftir bókinni en Spánverjar áttu stærsta sigurinn.

Spánn fór létt með Georgíu menn og lauk leiknum með 0-4 sigri gestanna frá Spáni en staðan í hálfleik var orðin 0-3. Ferran Torres og Martin Zubamendi skoruðu eitt mark hvor í leiknum en Mikel Oyarzabal skoraði tvívegis. Spánn er á toppi E riðils með 15 stig í fimm leikjum. Spánn hefur því tryggt sér sæti sitt á HM á næsta ári nema Tyrkir, sem eru í öðru sæti, vinni þá 7-0 eða meira í leik liðanna á þriðjudaginn.

Tyrkir festu sig í sessi í öðru sæti E riðilsins með því að leggja Búlgaríu að velli heimafyrir 2-0. Fyrirliðinn Hakan Çalhanoğlu kom heimamönnum yfir en Chernev skoraði sjálfsmark sem tryggði Tyrkjum sigurinn. Þeir geta jafnað Spán að stigum í næsta leik með sigri en komast ekki fram úr þeim nema með stórsigri.

Þá vann Wales skyldusigur á Liechtenstein 1-0 á útivelli en Jordan James skoraði markið. Wales á enn möguleika á að komast á HM en þeir eru með 13 stig í þriðja sæti J riðils eins og Norður Makedónar sem eru í öðru sæti. Belgar sitja á toppi riðilsins með 15 stig.

Þá unnu Austurríkismenn 0-2 útisigur á Kýpur þar sem Marko Arnautovic skoraði bæði mörkin. Sigurinn þýðir að Austurríki getur ekki farið neðar en annað sæti í H riðlinum. Ef Bosníu og Hersegóvínu mistekst að vinna Rúmena í kvöld þá er HM farseðillinn klár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×