Skoðun

Virkjanir í byggð – er farið að lögum?

Gerður Stefánsdóttir skrifar

Opið bréf til Umhverfis- og orkustofnunar

Þrátt fyrir dóm Hæstaréttar þann 9. júlí 2025 um ólögmæti Hvammsvirkjunar veittuð þið þann 11. ágúst 2025, Landsvirkjun bráðabirgðaleyfi til undirbúnings Hvammsvirkjunar. Virkjunarleyfi til bráðbirgða, sem sérfræðingarnir í úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telja tóma lögleysu og vildu ógilda í úrskurði fyrir tveimur vikum.

Samkvæmt bráðabirgðaleyfinu eru heimilaðar: undirbúningsframkvæmdir sem felast í uppsetningu vinnubúða, aðkomuvegi og annarri vegagerð innan framkvæmdasvæðis og efnisvinnslu fyrir vegagerð auk raf-, fjar- og hitavatnsveitu vinnubúða- og framkvæmdasvæðis.

Frá því í lok ágúst hafa farið fram svokallaðar presplit sprengingar, alla jafna tvisvar í viku, en presplit sprengingar eru kraftmiklar sprengingar og háværar eins og kemur fram hjá tengilið Landsvirkjunar á facebook hóp íbúa hér í sveit. Að jafnaði er frátekinn tími frá kl. 12-17. Sem sagt tveir heilir eftirmiðdagar í viku.

Háværar og umfangsmiklar sprengingar hafa því dunið hér í sveit í bráðum þrjá mánuði, með þeim hættum sem því fylgja. Ekki mun ástandið batna ef farið verður í hina eiginlegu framkvæmd með uppistöðulóni, stíflum, frárennslisskurði og enn frekari vegagerð. Undirrituð óskaði eftir við tengilið Landsvirkjunar að fá upplýsingar um slysa- og áhættumat er varðar íbúa m.a. vegna sprenginga, aukinnar umferðar og þungaflutninga, en engar slíkar upplýsingar var að finna á þeim tengli sem viðkomandi sendi sem svar við fyrirspurn minni.

Þann 28. október s.l. setti starfsmaður Landsvirkjunar tengil á upplýsingavef Landsvirkjunar á fyrrnefndan vef íbúa. Þar kom fram eftirfarandi: Áfram er unnið að undirbúnings–framkvæmdum í Hvammi, en þar fer fram efnislosun og er því sprengt daglega. Efnið er svo flutt í vinnslu eða á lager eftir því sem við á. Að jafnaði eru um 10-20 manns á svæðinu við vinnu og hátt í 30 tæki.

Þótti nú konu í sveit orðnar ansi umfangmiklar framkvæmdir og sprengingar við gerð vegar og aðstöðu fyrir vinnubúðir.

Þann 13.nóvember kom eftirfarandi tilkynning inn á vef íbúa: Verktaki Landsvirkjunar, sem annast undirbúningsframkvæmdir fyrir Hvammsvirkjun, hefur hafið næturvaktir við efnisvinnslu á svæðinu. Um er að ræða eina gröfu, tvo brjóta og hjólaskóflu sem verða við störf yfir nóttina. Ekki verður keyrt á trukkum né unnið í frárennslisskurði á næturvöktum.

Samkvæmt bráðabirgðaleyfi ríkisstjórnar hefur Landsvirkjun ekki leyfi til þess að vinna að gerð frárennslisskurðar. Skýrt kemur fram í bráðarbirgðarleyfinu að: Framkvæmdaleyfis–umsóknin tekur ekki til framkvæmda sem eru í eða við vatnsfarvegi og munu framkvæmdirnar því hvorki hafa bein eða óbein áhrif á vatnshlot, ástand vatnshlota eða umhverfismarkmið þeirra. Það er öllum þeim sem þekkja til laga um stjórn vatnamála (36/2011) ljóst að frárennsliskurðurinn er skilgreint vatnshlot, svokallað manngert vatnshlot. Bráðabirgðaleyfið nær því ekki til þess að vinna að þeirri framkvæmd. Landsvirkjun á að vera það ljóst, sinni hún skyldum sínum með eðlilegum hætti. Svo virðist þó sem sveitastjórn Rangárþings ytra hafi gefið út framkvæmdarleyfi fyrir skurðinum en aftur, Landsvirkjun á að vita að leyfi hvað skurðinn varðar féll ekki undir bráðabirgðarleyfið og stenst leyfi Rangárþings ytra ekki skoðun. Ég óska hér með eftir að farið verði að lögum um þessa framkvæmd, slíkt er eðlileg lágmarks krafa, og að vinnsla að fráveituskurði verði stöðvuð strax.

Með þessu opna bréfi til Umhverfis- og orkustofnunar er þessu því komið á framfæri.

Höfundur er líffræðingur og varasveitarstjórnarfulltrúi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.




Skoðun

Sjá meira


×