Fótbolti

Settu upp sýningu og sjö evrópsk lið komin á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Leroy Sané skoraði tvö mörk fyrir Þjóðverja í kvöld.
Leroy Sané skoraði tvö mörk fyrir Þjóðverja í kvöld. Getty/Gabor Baumgarten

Þýskaland og Holland hafa nú bæst í hóp þeirra liða sem spila á HM karla í fótbolta í N-Ameríku næsta sumar. Þau tryggðu sig inn á mótið með látum í kvöld.

Þjóðverjar mættu Slóvakíu í úrslitaleik um efsta sæti A-riðils en Slóvakar áttu aldrei neina möguleika í kvöld og steinlágu, 6-0.

Newcastle-framherjinn Nick Woltemade skoraði fyrsta markið á 18. mínútu og staðan var svo orðin 4-0 í hálfleik, eftir að Serge Gnabry skoraði og Florian Wirtz lagði upp tvö mörk fyrir Leroy Sané.

Ridle Baku skoraði fimmta markið og hinn 19 ára Assan Ouédraogo skoraði svo í sínum fyrsta A-landsleik, tveimur mínútum eftir að hann kom inn á, eftir stórkostlegan samleik þýska liðsins.

Hollendingar í stuði

Holland var með svo góða markatölu á toppi G-riðils að útilokað var að liðið myndi ekki komast beint á HM en það gerði liðið með stæl, með 4-0 sigri gegn Litháen.

Cody Gakpo verður á HM næsta sumar. Hér fagnar hann marki sínu gegn Litháen í kvöld, úr vítaspyrnu.Getty/Rene Nijhuis

Tijjani Reijnders skoraði eina mark fyrri hálfleiks og á fimm mínútna kafla í seinni hálfleik skoruðu Cody Gakpo, Xavi Simons og Donyell Malen hin þrjú mörkin.

Pólverjar enduðu í 2. sæti þessa riðils og fara í HM-umspilið, líkt og Slóvakía úr A-riðlinum.

Króatar langefstir

Í L-riðli hafði Króatía þegar tryggt sér efsta sæti. Liðið lenti 2-0 undir gegn Svartfjallalandi en vann samt 3-2 útisigur, með mörkum frá Ivan Perisic, Kristijan Jakic og Nikola Vlasic.

Tékkar enduðu þar í 2. sæti en þeir unnu 6-0 sigur á Gíbraltar í lokaleiknum og enduðu með 16 stig, sex stigum á eftir Króatíu og fjórum á undan Færeyjum sem lengi vel voru í baráttunni um sæti í HM-umspilinu.

Sjö Evrópuþjóðir komnar á HM

Evrópuþjóðirnar sem nú eru komnar inn á HM eru England, Frakkland, Noregur, Portúgal, Króatía, Holland og Þýskaland.

Á morgun bætist Sviss í hópinn, nema liðið tapi með sex marka mun gegn Kósovó, og Spánn nema liðið tapi með sjö marka mun gegn Tyrklandi. Skotland og Danmörk mætast svo í úrslitaleik í C-riðli þar sem Dönum dugar jafntefli.

Austurríki og Bosnía mætast í úrslitaleik í H-riðli, þar sem Austurríki dugar jafntefli á heimavelli, og í J-riðli þurfa Belgar bara að vinna Liechtenstein til að tryggja sér efsta sætið, og jafntefli myndi líklega duga þeim.

Fjórar Evrópuþjóðir til viðbótar fara svo á HM í gegnum umspilið í lok mars.

Dregið verður í riðla á HM þann 5. desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×