Körfubolti

Stjörnur Grindavíkurliðsins flytja heim til Grinda­víkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stórstjörnur karlaliðs Grindavíkur, Deandre Kane og Khalil Shabazz, eru að flytja heim til Grindavíkur.
Stórstjörnur karlaliðs Grindavíkur, Deandre Kane og Khalil Shabazz, eru að flytja heim til Grindavíkur. Vísir/Anton Brink

Körfuboltalið Grindavíkur hefur spilað heima í Grindavík á þessu tímabili og nú vilja erlendir leikmenn liðsins flytja þangað líka.

Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, sagði frá því á samfélagsmiðlum að stórstjörnur karlaliðs Grindavíkur, Deandre Kane og Khalil Shabazz, séu nú að flytja heim til Grindavíkur.

Ástæðan er að Ingibergur og aðrir sjálfboðaliðar í körfuknattleiksdeildinni eru þessa dagana að leita að nokkrum nauðsynlegum hlutum svo þeir félagar geti komið sér vel fyrir í góðu húsi í Grindavík.

Söfnunin hefur gengið vel enda búið að finna fyrir þá sófa, sjónvarp, stóla og eldhúsborð en það er enn verið að leita að rúmunum.

Kane hefur talað fyrir því að Grindavíkurliðið spili alla leiki sína í íþróttahúsinu í Grindavík en liðið hafði spilað í Smáranum undanfarin tvö ár eftir jarðhræðingarnar á Reykjanesskaganum.

Grindavíkurliðið hefur unnið alla sjö leiki sína í Bónus-deild karla í körfubolta til þessa og þeir Shabazz og Kane hafa spilað vel.

Shabazz er með 22,3 stig og 5,4 stoðsendingar í leik en Kane er með 13,5 stig, 5,2 fráköst og 5,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Þeir kunna sérstaklega vel við sig í HS Orku-höllinni í Grindavík með fjóra sigra og yfir hundrað stig skoruð í leik en það reynir á liðið í næsta leik þegar Tindastóll kemur í heimsókn á fimmtudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×