Fótbolti

Sviptur fyrirliðabandinu fyrir að hunsa stuðnings­menn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tomás Soucek er ekki lengur fyrirliði tékkneska landsliðsins. Hér ræðir hann við dómara á EM 2024.
Tomás Soucek er ekki lengur fyrirliði tékkneska landsliðsins. Hér ræðir hann við dómara á EM 2024. Getty/Marco Steinbrenner

Tékkar eru á leiðinni í umspil um sæti á heimsmeistaramótinu en það er ekki mikil gleði og frekar súr stemmning í kringum liðið þrátt fyrir að HM-draumurinn lifi enn.

Tékkneska knattspyrnusambandið svipti Tomás Soucek fyrirliðabandi sínu í gær og neitaði leikmönnum landsliðsins um bónusgreiðslur sem refsingu fyrir að hunsa stuðningsmenn sína eftir síðasta leik sinn í undankeppni HM gegn Gíbraltar.

Tékkneska liðið hafði þegar tryggt sér annað sætið í L-riðli en vann 6-0 heimasigur á Gíbraltar í Olomouc á mánudag. Eftir leikinn fóru leikmennirnir ekki til að þakka harðkjarna stuðningsmönnum sem höfðu gagnrýnt frammistöðu þeirra í undankeppninni.

Liðið verður í efri styrkleikaflokki í drættinum á fimmtudag fyrir umspil sextán liða í mars næstkomandi um fjögur laus sæti Evrópu á heimsmeistaramótinu næsta sumar.

Knattspyrnusambandið bað stuðningsmenn afsökunar og sagði að leikmennirnir myndu ekki fá bónusgreiðslur fyrir leikinn. Í staðinn mun peningurinn renna til góðgerðarmála. Leikmaður West Ham mun síðan missa fyrirliðabandið fyrir næsta leik liðsins.

„Stuðningsmenn hafa fullan rétt á að lýsa yfir óánægju sinni með ófullnægjandi frammistöðu í síðustu leikjum,“ sagði í yfirlýsingu frá sambandinu. „Viðbrögð leikmannanna hefðu átt að vera allt önnur. Þeir hefðu átt að þakka virkum stuðningsmönnum.“

Í leiknum á mánudag sungu stuðningsmenn ítrekað „Berjist fyrir Tékkland.“

Tékkum gekk brösuglega í undankeppninni og ráku þjálfarann Ivan Hasek eftir niðurlægjandi 2-1 tap gegn Færeyjum í síðasta mánuði.

Aðstoðarmaður Hasek, Jaroslav Köstl, stýrði liðinu til 1-0 sigurs gegn San Marínó í vináttuleik og gegn Gíbraltar. Nýr þjálfari gæti verið ráðinn fyrir umspilið.

Tékkar komust síðast á heimsmeistaramótið árið 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×