Körfubolti

Nýr Kani á leið til Ármanns: „Getur vonandi leyst ýmsa hluti fyrir okkur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steinar Kaldal vonast eftir að nýi Bandaríkjamaðurinn styrki Ármenninga til góðra verka.
Steinar Kaldal vonast eftir að nýi Bandaríkjamaðurinn styrki Ármenninga til góðra verka. vísir/diego

Steinar Kaldal, þjálfari Ármanns, segir að nýliðarnir hafi ekki haft orku til að berjast við Njarðvík allt til loka í leik liðanna í IceMar-höllinni í kvöld. Nýr Bandaríkjamaður er á leið í Laugardalinn.

Ármann tapaði með 24 stigum fyrir Njarðvík, 99-75, og bíður enn eftir sínum fyrsta sigri í Bónus deildinni. Ármenningar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og minnkuðu muninn í þrjú stig en nær komust þeir ekki.

„Við erum inni í leiknum fram í miðjan 3. leikhluta en þá náðu þeir góðu áhlaupi á okkur og forystu fyrir 4. leikhluta og það dró vindinn úr okkur,“ sagði Steinar í leikslok. 

„Við erum þunnskipaðir og menn verða þreyttir. Við vorum komnir í villuvandræði, þurftum að dreifa álaginu og þeir keyrðu á okkur og voru betri í seinni hálfleik.“

Ármenningar voru án bandarísks leikmanns í kvöld en Steinar segir að nýr Kani sé væntanlegur til liðsins.

„Við eigum von á leikmanni vonandi sem allra fyrst. Það er stutt í það,“ sagði þjálfarinn.

En hvers konar leikmaður er nýi Kaninn?

„Þetta er svona „combo“ bakvörður sem getur vonandi leyst ýmsa hluti fyrir okkur. Hann getur vonandi tekið að sér leikstjórnandahlutverk í bland við hina sem eru að spila það og frákastað. Okkur vantar menn í fráköst og styrk gegn þessum liðum. Við erum að vonast til að hann komi með það fyrir okkur,“ svaraði Steinar.

Þrátt fyrir að Ármann hafi tapað öllum átta leikjum sínum í Bónus deildinni segir Steinar að andinn í hópi nýliðanna sé góður.

„Mórallinn á æfingum er góður. Það eru allir meðvitaðir, og voru það frá byrjun, hvað við vorum að koma inn í þessa deild. Við erum með yngsta og óreyndasta lið deildarinnar. Umgjörðin hjá okkur er lítil þótt það séu stórkostlegir sjálfboðaliðar í kringum Ármann,“ sagði Steinar.

„Það var meðvitund um að þetta yrði erfitt. Auðvitað er hundleiðinlegt að tapa leik eftir leik en við erum bara brattir að vinna inni í þeim ramma sem við erum með. Við ætlum að halda áfram að gera það og við reynum að byggja á atriðum sem ganga vel, setja okkur markmið leik fyrir leik og ætlum að halda því áfram,“ bætti Steinar við að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×