Fótbolti

Heimir varaði McClaren við því að hann myndi ekki endast í tvo mánuði

Valur Páll Eiríksson skrifar
McClaren hafði samband við Heimi áður en hann tók við starfinu hjá jamaíska knattspyrnusambandinu.
McClaren hafði samband við Heimi áður en hann tók við starfinu hjá jamaíska knattspyrnusambandinu. Samsett/Getty

Steve McClaren, eftirmaður Heimis Hallgrímssonar sem þjálfari jamaíska landsliðsins, sagði upp störfum í vikunni eftir að liðinu tókst ekki að komast beint á HM í gegnum undankeppni Norður-Ameríku. Starfsumhverfið hjá jamaíska sambandinu reyndist honum snúið.

Jamaíka gerði jafntefli við Curacao í lokaleik liðsins í undankeppninni sem skilaði hollensku nýlendunni á HM en Jamaíka fer í umspil á nýju ári. McClaren sagði starfi sínu lausu eftir leikinn.

The Athletic greindi stjóratíð Englendingsins hjá Jamaíka en hann tók við sumarið 2024 eftir að Heimir Hallgrímsson sagði upp störfum sem þjálfari liðsins.

Samkvæmt fréttinni hafði McClaren samband við Heimi áður en hann tók við starfinu og á Heimir að hafa varað þann enska við því að hann myndi ekki endast í tvo mánuði í starfi.

Mikil pólitík er innan jamaíska sambandsins og margir aðilar sem þarf að halda góðum. Sambandið skuldar háar fjárhæðir og var mikil pressa á McClaren að koma liðinu á HM til að létta á fjárhagsstöðunni.

Aðstaða og aðföng eru ekki þau bestu og töluverð innanbúðaátök. Stjórnarmenn pressa á val á ákveðnum leikmönnum og margar sögur hafa verið af agavandamálum leikmanna í landsliðsferðum. Til að mynda voru þrír leikmenn myndaðir á knæpu klukkan tvö um nótt í aðdraganda æfingar morguninn eftir í nýliðnu verkefni.

hm McClaren sætti einnig gagnrýni fyrir að eyða litlum tíma í eyríkinu en hann mætti iðulega til landsins frá Englandi skömmu áður en landsliðsverkefni hófust og sneri snarlega heim að þeim loknum. Stjórn sambandsins hefur lagt áherslu á að fleiri leikmenn sem spili í heimalandinu fái tækifæri með liðinu en McClaren hefur lítið fylgst með jamaískum fótbolta.

Vegna þessa áskorana á Heimir að hafa varað McClaren við að hann myndi ekki endast lengur en í tvo mánuði í starfi. McClaren entist þó í 17 mánuði en þótti vissast að stíga frá borði fyrst ekki tókst að uppfylla kröfuna um HM-sæti í gegnum undankeppnina.

Hann sagði í yfirlýsingu við uppsögnina að hann væri þess fullviss að Jamaíka komist á mótið í gegnum umspil í mars.

Jamaíka ætir Nýju-Kaledóníu í undanúrslitum blandaðs heimsálfuumspils í mars. Sigurlið þess leiks spilar hreinan úrslitaleik við Lýðstjórnarlýðveldið Kongó um sæti á HM.

Heimir Hallgrímsson er einnig á leið í umspil í mars með liði Íra. Írland mætir Tékklandi í undanúrslitum Evrópuumspilsins. Vinnist sá leikur mæta Írar annað hvort Danmörku eða Norður-Makedóníu í úrslitaleik um HM-sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×