Erlent

Franski fjar-hægrimaðurinn mælist sigur­strang­legastur

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Enn er þónokkuð í kosningar en sem stendur mælist Jordan Bardella líklegastur til að verða næsti forseti Frakklands.
Enn er þónokkuð í kosningar en sem stendur mælist Jordan Bardella líklegastur til að verða næsti forseti Frakklands. AP/Virginia Mayo

Í fyrsta sinn mælist hinn franski Jordan Bardella, leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar, líklegastur til að sigra forsetakosningarnar þar í landi 2027 samkvæmt spá Odoxa. Hinn þrítugi Bardella tók við sem formaður flokksins af Marine Le Pen en samkvæmt nýrri könnun greiningarfyrirtækisins Odoxa þykir hann líklegastur til að hljóta flest atkvæði ef gengið væri til kosninga í dag, óháð því hverjir andstæðingar hans verða.

Þátttakendur könnunarinnar sem Reuters greinir frá voru um þúsund talsins en hún var gerð dagana 19. og 20. nóvember. Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að Bardella myndi fá annað hvort 35% eða 36% atkvæða í fyrstu umferð háð því hverjir mótherjarnir væru. Hins vegar myndi hann hafa betur en allir aðrir mögulegir frambjóðendur í annarri umferð. 

Ekki ávísun á sigur

Reynslan sýnir aftur á móti að góður árangur í skoðanakönnunum svo löngu fyrir kosningar gefur ekki endilega til kynna hver úrslit verða þegar loks kemur að kosningum.

Í könnuninni var fylgi við Bardella mælt á móti róttæka vinstrimanninum Jean-Luc Melenchon, hófsamari vinstrimanninum Raphael Glucksmann og miðjumönnunum og fyrrverandi forsætisráðherrunum Gabriel Attal og Edouard Philippe.

„Því miður fyrir Jordan Bardella og stuðningsmenn hans, og sem betur fer fyrir alla aðra, þá er það engin ávísun á árangur að leiða örugglega í skoðanakönnunum svo mörgum mánuðum fyrir forsetakosningar,“ segir í tilkynningu Odoxa um könnunina.

Vinsælli en Le Pen

Í aðdraganda fyrri kosninga hafa bæði Marine Le Pen og faðir hennar, Jean-Marie Le Pen, mætt stjórnmálabandalögum sem í þrígang hafa lagt feðginin í annarri umferð forsetakosninga.

Líkt og kunnugt er hefur henni 57 ára gömlu Le Pen verið meinað að bjóða sig fram í fimm ár eftir að dómstóll komst að þeirri niðurstöðu fyrr á þessu ári að hún hefði gerst uppvís að fjármálamisferli. Hún hefur áfrýjað niðurstöðunni en Bardella, sem hefur notið gríðarlegra vinsælda umfram Le Pen, þykir augljóst forsetaefni flokksins í komandi kosningum ef Le Pen verður áfram ómögulegt sjálfri að bjóða fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×