Skoðun

Öryggi far­þega í leigu­bílum

Sigurður Helgi Pálmason skrifar

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hitti naglann á höfuðið þegar hann líkti ástandinu á leigubílamarkaðnum við „villta vestrið.“ Glundroði og óöryggi hefur einkennt íslenska leigubílaþjónustu allt frá lagabreytingunni árið 2023 þegar markaðurinn var nær alfarið gefinn frjáls. Fréttir af ofbeldi, svindli á ferðamönnum, óhæfum aðilum í akstri og skorti á raunverulegu eftirliti hafa verið tíðar, og traust almennings á þessari mikilvægu grunnþjónustu hefur beðið hnekki.

Frumvarp ráðherra sem nú liggur fyrir er ætlað að vinda ofan af þessari óheillaþróun og endurvinna öryggi og traust. Allir leigubílstjórar yrðu skyldaðir til að tilheyra viðurkenndri leigubílastöð sem beri ábyrgð á rekstri sinna ökumanna, eftirliti og því að lögum sé fylgt. Þar að auki verði innleitt rafrænt eftirlit þar sem hver einasta ferð verði skráð frá upphafi til enda ásamt verði. Þetta mun stórbæta öryggi farþega, ekki síst viðkvæmra hópa, auðvelda lögreglu rannsókn mála og draga úr líkum á ofrukkunum og svikum.

Málið er nú að klárast í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og gert ráð fyrir að það fari í aðra umræðu strax eftir áramót. Það er mikilvægt að þessar breytingar nái í gegn sem allra fyrst. Það blasir við að fyrri lagabreyting leiddi til óviðundandi ástands á leigubílamarkaðnum, þar sem friður hafði ríkt allt frá því leigubílar fóru fyrst að aka um götur landsins.

Meginástæða frumvarps ráðherra Flokks fólksins er einföld: Öryggi og traust almennings á að vera í forgangi. Við getum ekki setið aðgerðalaus þegar óreiða ríkir á leigubílamarkaði og ógnar öryggi fólks. Með þessum breytingum tökum við skref í átt að ábyrgari, öruggari og réttlátari þjónustu, bæði fyrir farþega og leigubílstjóra.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins. 




Skoðun

Skoðun

Ekki líta undan

Reyn Alpha Magnúsdóttir,Bjarndís Helga Tómasdóttir skrifar

Sjá meira


×