Erlent

Samfélagsmiðlabannið hefur tekið gildi í Ástralíu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Samfélagsmiðlar skipa stóran sess í lífi ungmenna í dag.
Samfélagsmiðlar skipa stóran sess í lífi ungmenna í dag. Vísir/Getty

Samfélagsmiðlabann fyrir börn undir sextán ára aldri tók gildi í dag. Um er að ræða fyrsta slíka bannið í heiminum. Forsætisráðherra Ástralíu segist vilja að börnin fái að njóta æsku sinnar.

Tæknirisar á við Meta eru nú ábyrgir fyrir því að notendur samfélagsmiðla þeirra í Ástralíu séu eldri en sextán ára. Gangist fyrirtækin ekki við því og taki viðeigandi skref að mati ríkisstjórnar landsins geta þau átt von á sekt upp á 49,5 milljónir ástrælskra dollara, rúma fjóra milljarða íslenskra króna. 

Meðal samfélagsmiðla eru Facebook, Instagram, Snapchat, TikTok og YouTube. Til að staðfesta aldur þeirra sem eru nógu gamlir til að nota samfélagsmiðlanna verður hægt að biðja persónuskilríki, álykta aldur viðkomandi út frá hegðun hans á miðlunum eða álykta aldur út frá útliti notandans og rödd samkvæmt BBC.

Yfir milljón börn eru á aldrinum tíu til fimmtán ára í Ástralíu. Samkvæmt rannsókn á vegum stjórnvalda voru 96 prósent barnanna á samfélagsmiðlum. Þar af höfðu sjötíu prósent þeirra séð skaðlegt efni, líkt og ofbeldi eða sjálfsvíg.

„Þetta samfélagsmiðlabann er til að tryggja að börn fái æsku,“ sagði Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu við New York Times. „Þetta verður ekki fullkomið, en þetta er of mikilvægt til að reyna ekki.“


Tengdar fréttir

Höfða mál gegn nýju samfélagsmiðlabanni í Ástralíu

Tveir unglingar hafa ákveðið, með stuðningi baráttusamtaka, að höfða mál gegn ástralska ríkinu vegna nýrra reglna sem kveða á um að samfélagmiðlar á borð við Facebook, Instagram, TikTok og YouTube, mega ekki leyfa einstaklingum undir 16 ára aldri að stofna aðganga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×