Sport

Fór úr vondum degi í enn verri dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sherrone Moore lætur hér heyra í sér á hliðarlínunni í leik með Michigan Wolverines.
Sherrone Moore lætur hér heyra í sér á hliðarlínunni í leik með Michigan Wolverines. Getty/Luke Hales

Það er ekki nóg með að þjálfari Michigan-háskólaliðsins hafi verið rekinn úr starfi í gær heldur endaði hann daginn á bak við lás og slá.

Sherrone Moore var í haldi í Washtenaw-sýslufangelsinu í Michigan á miðvikudagskvöld, grunaður um meinta líkamsárás, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hann var rekinn sem þjálfari Michigan fyrir það sem skólinn sagði vera óviðeigandi samband við starfsmann. 

Lögreglan í Pittsfield sendi frá sér yfirlýsingu á miðvikudagskvöld þar sem fram kom að hún hefði brugðist við kl. 16:10 við Ann Arbor Saline Road í þeim tilgangi að rannsaka meinta líkamsárás. Grunaður maður í þessu máli var tekinn höndum. Engin yfirvofandi ógn var talin steðja að samfélaginu.

„Hinn grunaði var vistaður í Washtenaw-sýslufangelsinu í bið eftir yfirferð ákæruvaldsins í Washtenaw-sýslu á ákærum,“ hélt yfirlýsingin áfram. „Að svo stöddu er rannsóknin enn í gangi. Í ljósi eðlis ásakananna, nauðsynjar þess að viðhalda heilindum rannsóknarinnar og núverandi stöðu hennar er okkur óheimilt að gefa frekari upplýsingar.“

Lögreglan í Pittsfield nafngreindi ekki hinn grunaða í yfirlýsingu sinni.

Michigan rak Moore á miðvikudag í kjölfar rannsóknar á framferði hans gagnvart starfsmanni.

„Aðalruðningsþjálfara U-M, Sherrone Moore, hefur verið sagt upp störfum með réttmætum ástæðum, með tafarlausri verkun,“ sagði skólinn í yfirlýsingu. „Í kjölfar rannsóknar háskólans fundust trúverðugar sannanir fyrir því að þjálfarinn Moore hafi átt í óviðeigandi sambandi við starfsmann.“

Hinn 39 ára gamli Moore var þjálfari Michigan í tvö tímabil, eftir að hafa starfað áður sem sóknarþjálfari liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×