KA - Aftur­elding 22-28 | Öruggt hjá gestunum á Akur­eyri

Árni Gísli Magnússon skrifar
Ihor Kopyshynskyi var markahæstur hjá Aftureldingu í kvöld.
Ihor Kopyshynskyi var markahæstur hjá Aftureldingu í kvöld. vísir/Anton

Eftir að hafa verið einu marki yfir í hálfleik vann Afturelding sterkan sex marka sigur gegn KA á Akureyri í kvöld, 28-22, í Olís-deild karla í handbolta.

Afturelding er því með 21 stig eftir 14 leiki, stigi á eftir Haukum og Val sem eru í efstu sætunum. KA er hins vegar með 16 stig í 5. sætinu, nú þegar fjórtán umferðum er lokið.

Gestirnir byrjuðu leikinn betur og komust í 2-0 eftir nokkrar mínútur áður en KA jafnaði leikinn. Röð mistaka hjá KA gerði það svo að verkum að Afturelding skoraði þrjú mörk í röð og tók Andri Snær, þjálfari KA, leikhlé í stöðunni 4-7 sem virtist koma mönnum í gírinn því KA menn jöfnuðu leikinn fljótlega og skptust liðin í raun á að skora út hálfleikinn.

Markmenn liðanna voru funheitir en Bruno Bernat hjá KA og Einar Baldvin hjá Aftureldingu vörðu báðir 10 skot í hálfleiknum.

KA gat jafnað leikinn á lokasekúndum fyrri hálfleiks en fóru illa með dauðafæri sem Einar Baldvin varði. Staðan 10-11 gestunum í vil í hálfleik.

Síðari hálfleik vilja KA menn eflaust reyna gleyma hið snarasta þar sem allt gekk á afturfótunum og skoraði liðið ekki eitt einasta mark á fyrstu þrettán mínútum hálfleiksins. Á meðan gengu gestirnir á lagið og juku muninn í átta mörk, 10-18, en þá sagði Arnór Ísak Haddsson hingað og ekki lengra og kom boltanum loksins í netið.

KA menn bitu þá frá sér og náðu að minnka muninn mest niður í fjögur mörk en nær komust þeir ekki þar sem Einar Baldvin átti stórleik í markinu með 19 varin skot og 50% markvörslu með frábæra vörn fyrir framan sig. Á meðan var sóknarleikur KA flatur og hugmyndasnauður.

Afturelding fór að lokum með sex marka sigur af hólmi, 22-28.

Atvik leiksins

Ekkert eitt atvik sem stendur upp úr en Ihor Kopyshynskyi átti nokkur þrælskemmtileg mörk, bæði af vítalínunni og úr horninu sem fá að eiga þennan lið.

Stjörnur og skúrkar

Hjá Aftureldingu var Einar Baldvin frábær á milli stanganna með 19 varða bolta og 50% markvörslu sem telst ansi gott.

Sóknarleikurinn gekk vel hjá gestunum og var Ihor Kopyshynskyi með 9 mörk úr 10 skotum. Á eftir honum kom Sveinur Olafsson með 8 mörk úr 10 skotum, ásamt því að vera sterkur í vörninni, og Kristján Ottó Hjálmsson með 7 mörk úr jafnmörgum tilraunum.

Bruno Bernat hélt KA á floti lengi vel í leiknum og endaði með 17 varin skot eða tæplega 40% markvörslu.

Sóknarleikur KA var arfaslakur lengst af en Giorgi Dikhaminjia var markahæstur með 7 mörk og þar á eftir kom Einar Rafn Eiðsson með 4 mörk en hann spilaði ekki stóran hluta leiksins.

Bjarni Ófeigur skoraði aðeins 1 mark úr 9 skotum og KA þarf miklu meira frá honum til að vinna eins sterkt lið og Aftureldingu.

Dómarar

Nokkrir dómar hér og þar sem maður skildi ekki en heilt yfir fínasta frammistaða hjá teyminu.

Stemning og umgjörð

KA heimilið er þekkt fyrir rafmagnaða stemningu og læti og var þetta kvöld engin undantekning og umgjörðin flott. Það hafa þó fleiri mætt á pallana einhvertímann.

„Það var engin gervigreind í þessu“

Stefán Árnason, þjálfari Aftureldingar, var sáttur eftir að hafa sótt sigur gegn uppeldisfélagi sínu í KA-heimilinu í kvöld.

„Það er alltaf ofboðslega gott að vinna og hvað þá þegar frammistaðan er góð og síðan er hrikalega gaman að spila í KA heimilinu, hérna er stemning sem þú upplifir ekkert í mörgum húsum. Áhorfendur eru nálægt vellinum og ég talaði um það við strákana fyrir leik að það eru mörg hús sem þú kemur í og það er einhvernveginn lítið að frétta en hérna, við vissum að það yrði mikið af fólki og mikil læti. Það er ógeðslega gaman að spila í svona umhverfi og ég er bara mjög ánægður með hvernig leikmennirnir mínir svöruðu kallinu og bara njóta þess að spila og ná sínu besta.“

„Þó að KA hafi verið að koma með einhverja kafla eins og í fyrri hálfleik og jafnað eftir að við vorum þremur yfir, þá vorum við bara yfirvegaðir. Lið brotna oft hérna í KA heimilinu en við vorum bara kaldir og elskuðum að spila hérna, var góður andi í okkur og hrikalega góð tilfinning að koma í KA heimilið.“

Afturelding komst átta mörkum yfir í síðari hálfleik, en KA skoraði þá ekki mark á fyrstu 13 mínútum hálfleiksins en hvað var Afturelding að gera vel á þessum tíma?

„Við vorum að spila góða vörn í fyrri hálfleik líka, en örugglega rúmlega helmingurinn af mörkunum hjá KA voru úr seinni bylgju eða hraðaupphlaupum og þegar við vorum að komast í vörn vorum við góðir í fyrri hálfleik. Þeir voru of oft að ná að keyra á okkur og skora þannig það sem gerist er að sóknirnar voru góðar, enduðum á skoti og náðum að fara til baka og fylgdum þeim bara eftir. Við spiluðum mjög góðan varnarleik, það var gífurlega góður vilji í varnarleiknum okkar og Einar Baldvin varði svo vel fyrir aftan. Bara eins og maður segir, gífurleg vinnusemi hjá mínum mönnum en maður bjóst kannski ekki við svona stórum kafla en við vissum að við myndum ná að hlaupa til baka og ná að stilla upp þá myndum við ná svona tökum á leiknum og þá myndi koma svona kafli sem kæmi okkur allavega þremur til fjórum yfir og búa til svona góða stöðu fyrir okkur og það er það sem gerist.“

Einar Baldvin Baldvinsson var með 50% vörslu og 19 varin skot. Einar notar gervigreind til aðstoða sig við undirbúning leikja og var Stefán því spurður hvort Einar hafi legið yfir klippum af skotum KA manna með aðstoð gervigreindar í liðinni viku.

„Ég veit það ekki en þetta voru bara knallharðar, faglegar, mannlegar forsendur sem voru í dag held ég, það var engin gervigreind í þessu. Þetta voru bara mannleg viðbrögð, maður sem er vel undirbúinn og ég held að þetta hafi bara verið mannlega forsendur í dag fyrst og fremst. Kannski hefur hann notað gervigreindina eitthvað en hún hjálpar þér ekkert á gólfinu, þú þarft að vera tilbúinn í leikinn eins og hann gerði og hann gefur okkur ofboðslega orku. Það er ofboðslegur vilji í þessum strák, hann heldur öðrum mönnum á tánum og bara ótrúlega mikilvægur fyrir okkur .“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira