Körfubolti

Wembanyama sneri aftur í sigri gegn meisturunum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Geimveran Wembanyama er einn besti leikmaður NBA deildarinnar. 
Geimveran Wembanyama er einn besti leikmaður NBA deildarinnar.  Stacy Revere/Getty Images

Victor Wembanyama var mættur aftur út á gólf eftir tólf leikja fjarveru vegna meiðsla þegar San Antonio Spurs lögðu ríkjandi NBA meistara Oklahoma City Thunder að velli í nótt með 111-109 sigri sem kom þeim áfram í úrslitaleik NBA bikarsins.

Wembanyama skoraði 22 stig, greip 9 fráköst, gaf 2 stoðsendingar og varði 2 skot á aðeins 21 mínútu, í dramatískum tveggja stiga sigri.

„Ég vissi að ég hefði takmarkaðan tíma á vellinum þannig að ég reyndi að nýta hann sem best“ sagði Wembanyama en Devin Vassell var stigahæstur í liði Spurs með 23 stig.

Fyrir þennan leik hafði OKC aðeins tapað einum leik og unnið 24 sinnum, þar af síðustu sextán leiki í röð. Ríkjandi meistararnir hafa verið á flugi sem nánast enginn hefur getað stöðvað.

„Að vinna gegn svona liði er sérstakt, þetta gæti litið út sem hver annar leikur en þetta var alls ekki auðveldur, mjög þýðingarmikill sigur fyrir okkur“ sagði Wembanyama.

Sigurinn kemur Spurs einnig áfram í úrslitaleik NBA bikarsins, sem er bikarkeppni innan hefðbundnu deildarkeppninnar í NBA. Allir bikarleikir, nema úrslitaleikurinn, teljast sem venjulegir deildarleikir. Spurs munu mæta New York Knicks í úrslitaleik NBA bikarsins.

OKC, sem komst í úrslit bikarkeppninnar á síðasta ári en tapaði gegn Milwaukee Bucks, hafði tækifæri til að jafna bestu byrjun í sögu NBA deildarinnar með sigri í nótt. Golden State Warriors halda hins vegar enn í metið en liðið byrjaði tímabilið 2015-16 á 25 sigrum og 1 tapleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×