Körfubolti

Sagði fyrst nei við beiðni Kjartans: „Menn hálf skammast sín“

Aron Guðmundsson skrifar
Kjartan Atli hefur látið af störfum sem þjálfari Álftaness. Aðstoðarþjálfarinn Hjalti Þór Vilhjálmsson, sem fylgist hér með fyrir aftan hann, stýrir liðinu í næstu tveimur leikjum hið minnsta.
Kjartan Atli hefur látið af störfum sem þjálfari Álftaness. Aðstoðarþjálfarinn Hjalti Þór Vilhjálmsson, sem fylgist hér með fyrir aftan hann, stýrir liðinu í næstu tveimur leikjum hið minnsta. Vísir/Anton Brink

Hjalti Þór Vil­hjálms­son, settur þjálfari Álfta­ness, segir leik­menn hálf skammast sín eftir þungt tap gegn Tindastól á dögunum og af­sögn Kjartans Atla Kjartans­sonar úr starfi þjálfara liðsins. Kjartan bað Hjalta um að taka við af sér fljót­lega eftir tapið gegn Stólunum á föstu­dag. Álfta­nes heimsækir nágranna sína í Stjörnunni í kvöld í bikarnum.

Föstu­dagurinn síðastliðinn var þungur fyrir Álft­nesinga og ráku margir upp stór augu þegar þeir sáu úr­slitin í leik liðsins gegn Tindastól. Fimmtíu og níu stiga tap niður­staðan, 78-137. Degi eftir það var greint frá því að þjálfarinn Kjartan Atli, sem hafði gert frábæra hluti með liðið tíma­bilin á undan, hefði sagt upp störfum.

Kjartan Atli tók við sem aðalþjálfari Álftaness árið 2022 og stýrði liðinu upp í efstu deild á sínu fyrsta tímabili. Á fyrsta tímabilinu í efstu deild tókst nýliðunum að tryggja sinn í úrslitakeppnina og komast í undanúrslit bikarkeppninnar. Á síðasta tímabili fór Álftanes í undanúrslit Íslandsmótsins en tapaði gegn Tindastóli.

„Þetta hefur náttúru­lega bara verið skrýtið,“ segir Hjalti sem var að­stoðarþjálfari Álfta­ness undir stjórn Kjartans Atla og stýrir liðinu í næstu tveimur leikjum. „Liðið fær að vita af þessu að morgni laugar­dagsins, þá höfðum við Kjartan Atli tekið fund með stjórninni þar sem það er ákveðið að ég stýri liðinu í næstu tveimur leikjum. Auðvitað er þetta sjokk fyrir liðið en vonandi spýta menn bara í lófana og mæta grimmir í næstu tvo leiki.“

Sagði fyrst nei við Kjartan Atla

Hvernig voru sam­skipti þín og Kjartans Atla varðandi þetta? 

„Hann lætur mig vita af þessu fljót­lega eftir leikinn á móti Tindastól. Biður mig um að taka við þessu. Ég segi í raun bara nei, ætla ekkert að taka við þessu, en við ákváðum svo í sam­einingu að ég myndi taka þessa tvo leiki alla­vegana. Svo kemur það í ljós hvað verður.“

Kjartan Atli hafi verið búinn að taka ákvörðun þegar að hann nálgaðist Hjalta.

„Hann bara ætlaði ekki að halda áfram. Vildi bara bakka út, bæði fyrir sig sjálfan sig og liðið, ég var ekkert sammála því.“

Sést í kvöld hvaða áhrif þetta hefur á leikmenn

Stórt tap gegn Tindastól mikið högg fyrir Álft­nesinga sem hafa verið að ganga í gegnum erfiðar vikur, þetta var fjórða tap liðsins í röð í deildinni.

„Það er kannski skrýtið að segja það en sóknar­lega vorum við allt í lagi í fyrri hálf­leik. En varnar­lega klukkum við ekki neinn. Þá var í raun engin fyrir­staða, hvorki undir körfunni eða fyrir utan þriggja stiga línuna, þannig að þeir komust í ákveðinn takt og gír. Það er bara rosa­lega hættu­legt að hleypa Tindastól í þannig gír. Í seinni hálf­leik fórum við svolítið mikið að hugsa út í þennan leik í kvöld.“

Leikur kvöldsins af stærri gerðinni í Garða­bænum gegn nágrönnunum í liði Stjörnunnar í 16 liða úr­slitum VÍS-bikarsins.

Hvaða áhrif hefur svona tap á liðið?

„Það kannski sést meira í kvöld, hvernig menn koma gíraðir inn í þann leik,“ svarar Hjalti sem vonast til þess að sínir menn svari fyrir sig gegn nágrönnunum í kvöld eftir þunga daga í að­dragandanum.

„Auðvitað getur þetta haft þannig áhrif að menn rífi sig í gang, byrji á núll­punkti og spyrni sér frá botninum. En svo er bara spurning hvernig sjálf­s­traustið er og hvað at­burðir síðustu daga hafa haft að segja. Ég á bara von á því að menn mæti brattir í kvöld.“

Heldurðu að leik­menn átti sig sjálfir á sinni ábyrgð í því sem hefur átt sér stað undan­farna dag?

„Við tókum mjög góðan fund á laugar­deginum. Fórum aðeins í gegnum þetta og miðað við hvernig menn báru sig þá, þá sýndist mér menn hálf skammast sín, áttuðu sig á ábyrgðinni hjá öllum í kringum liðið og í liðinu.“

„Ég held að þetta sé leikur þar sem við getum snúið við tíma­bilinu í rauninni. Þetta er frábær leikur til þess.

Lokar ekki á neitt

Þú stýrir liðinu í næstu tveimur leikjum en er þetta starf sem þú hefur áhuga á að taka að þér til fram­búðar?

„Það er í raun eitt­hvað sem við tökum púlsinn á eftir þessa tvo leiki sem framundan eru. Það fer mikið eftir því hvernig þessir tveir leikir verða, hvernig strákarnir bregðast við og þetta gengur allt saman. Hvernig ég fíla mig í þessum tveimur leikjum.“

Þannig að þú lokar engum dyrum fyrir þessa tvo leiki?

„Nei ég geri það ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×