Erlent

Lögðu á ráðin um sprengju­á­rásir í Kali­forníu

Samúel Karl Ólason skrifar
Pam Bondi, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, opinberaði handtökurnar í dag.
Pam Bondi, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, opinberaði handtökurnar í dag. AP/Alex Brandon

Fjórir menn hafa verið handteknir og ákærðir fyrir að hafa lagt á ráðin um að sprengja sprengjur víðsvegar um Kaliforníu á nýárskvöld og ráðast á skotmörk sem tengjast Innflytjenda- og tollaeftirliti Bandaríkjanna (ICE). Mennirnir eru sagðir tilheyra anga samtaka sem kallast Turtle Island Liberation Front.

AP fréttaveitan segir mennina hafa verið handtekna í síðustu viku í Lucerne-dal, austur af Los Angeles. Þar séu þeir grunaðir um að hafa verið að undirbúa tilraunir með sprengjur sem þeir ætluðu sér að smíða.

Þegar þeir voru handteknir fundust íhlutir í sprengjur og tól til að smíða þær.

Samkvæmt dómsskjölum eru mennirnir sakaðir um að hafa ætlað að koma sprengjum fyrir víðsvegar um Kaliforníu. Pam Bondi, dómsmálaráðherra, segir að árásirnar hafi átt að byrja á nýárskvöld og þar að auki hafi mennirnir ætlað sér að gera árásir á starfsmenn ICE og bíla þeirra.

Hún segir TILF vera fjarvinstri-vinstri hóp sem sé hliðhollur Palestínu, gegn stjórnvöldum Bandaríkjanna og gegn kapítalisma.

Til stendur að halda blaðamannafund um handtökurnar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×