Körfubolti

KR á toppinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Molly Kaiser fór fyrir KR-liðinu.
Molly Kaiser fór fyrir KR-liðinu. Vísir/Anton Brink

KR sest við hlið Njarðvíkur á topp Bónus deildar kvenna í körfubolta eftir sterkan sigur í kvöld, og óvænt tap þeirra síðarnefndu.

KR vann Stjörnuna í Vesturbæ Reykjavíkur í kvöld þar sem svarthvítur sigur var aldrei í mikilli hættu. KR leiddi með níu stiga mun í hálfleik og var munurinn orðinn 16 stig fyrir síðasta leikhlutann.

Garðbæingar svöruðu lítillega fyrir sig í lokin en aldrei þannig að spenna yrði úr leiknum.

34 stig Molly Kaiser auk 20 stig og 13 fráköst frá Eve Braslis fyrir KR-inga lögðu grunninn að 93-82 sigri.

KR jafnar Njarðvík að stigum á toppi deildarinnar. Bæði eru með 18 eftir tólf leiki.

Frábær sigur Tindastóls á toppliðinu

Njarðvík tapaði óvænt fyrir Tindastóli eftir framlengdan leik á Sauðárkróki. Aðeins er um að ræða fjórða sigur Tindastóls í vetur.

Þriggja stiga karfa Danielle Rodriguez þegar 17 sekúndur voru eftir tryggðu Njarðvík framlengingu en í henni reyndust Stólakonur öflugri og skoruðu 13 stig gegn sex.

Þriggja stiga karfa Mörtu Hermida til að koma Stólunum sjö stigum yfir þegar 40 sekúndur voru eftir lögðu grunn að 99-91 sigrinum. Hún var gríðarlega öflug í kvöld með 37 stig, sex fráköst og tólf stoðsendingar.

Í liði Njarðvíkur var Brittanny Dinkins atkvæðamest líkt og svo oft áður, með 33 stig, ellefu fráköst og níu stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×