Körfubolti

Þola þeir ekki gott um­tal? „Helmingur minna leik­manna skilur ekki ís­lensku“

Aron Guðmundsson skrifar
Benedikt Guðmundsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds og Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.
Benedikt Guðmundsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds og Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur. Vísir/Samsett

Daníel Guðni Guð­munds­son, þjálfari karla­liðs Kefla­víkur, segir vel geta verið að gott um­tal síðustu vikna hafi stigið ein­hverjum af hans leik­mönnum til höfuðs. Ekkert lið verði meistari á þessum tíma­punkti en Kefla­vík ætlar sér að verða bestir þegar úr­slita­keppnin tekur við. Kefla­vík og Njarðvík mætast í Bónus deildinni í kvöld.

„Við erum mjög til­búnir í þetta. Þetta eru alltaf skemmti­legustu leikirnir á hverjum vetri. Ég geri ráð fyrir því að við fáum mikið af fólki í húsið og að mínir leik­menn séu klárir í þetta verk­efni,“ segir Daníel, þjálfari Kefla­víkur, í sam­tali við Vísi en hann ólst sjálfur upp í Njarðvík, hefur bæði spilað og þjálfað hjá félaginu.

Keflvíkingar töpuðu fyrir Val í síðustu um­ferð eftir að hafa þar áður unnið þrjá leiki í röð í Bónus deildinni en sem stendur er Kefla­vík í 4.sæti deildarinnar, fjórum stigum frá topp­liði Grinda­víkur. Á milli um­ferða í deildinni komust Keflvíkingar áfram í átta liða úr­slit VÍS-bikarsins með sigri á ÍA.

„Við erum búnir að leggja mestu áhersluna á vörnina hjá okkur síðustu daga en sömu­leiðis hvaða sóknar­leik við eigum að spila og hvaða að­ferðir við þurfum að nota til þess að sækja á Njarðvíkingana. Þeir eru með sterkt lið og þrátt fyrir að hafa lent í skakka­föllum hafa þeir sýnt ágætis frammistöðu gegn sterkum liðum undan­farið. Við náðum einum leik á milli um­ferða í Bónus deildinni til þess að þétta raðirnar og óskandi að það verði allt klárt hjá okkur í kvöld.“

Kefla­vík hefur unnið sjö af tíu leikjum sínum til þessa í deildinni en þegar komið er að leikjum á móti liðum sem geta talist topp­lið, eins og Valur í síðustu um­ferð, hafa þeir ekki alveg náð að sýna sitt rétta and­lit.

Það var til um­ræðu í síðasta þætti af Körfu­bolta­kvöldi þar sem að Bene­dikt Guð­munds­son, sér­fræðingur þáttarins, sagðist viss um að gott um­tal síðustu vikurnar hafi náð til liðsins.

„Helmingur minna leikmanna skilur ekki íslensku. En það má vel vera að ágætis gengi undan­farið hafi stigið ein­hverjum til höfuðs. Það eru allir meðvitaðir um að við erum að reyna keppa við liðin fyrir ofan okkur, árangurinn í vetur hefur ekki verið eftir því. Við þurfum bara að þétta raðirnar, halda áfram að bæta okkar leik. Það verður enginn meistari á þessum tíma­punkti en við verðum að vera bestir þegar að úr­slita­keppnin byrjar.“

Hvernig sérðu þennan granna­slag spilast í kvöld?

„Ég held að þetta verði bara þessi klassíska barátta. Ég hef verið hinu megin við borðið, Njarðvíkur megin, bæði þjálfað og spilað þar. Þetta hefur alltaf verið mikil áskorun að koma í þessa leiki. Þetta eru alltaf hörku leikir. Ég vil keyra hraðann upp, hafa gott flæði í okkar leik. Ég veit að Njarðvík mun gera sitt besta til að berja á okkur og við sömu­leiðis á þeim.“

Grannaslagur Keflavíkur og Njarðvíkur í Bónus deild karla í körfubolta hefst klukkan korter yfir sjö í kvöld og verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn Sport Ísland 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×