Innlent

Súlunesmálið: Skoða þurfi lög er varða þagnar­skyldu

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Kristján Þórður Snæbjarnason varaformaður velferðarnefndar segir að skoða þurfi hvaða aðstæður það eru í lögum sem kveða á um að hægt sé að rjúfa þagnarskyldu heilbrigðisstarfsfólks komi upp rökstuddar ástæður.
Kristján Þórður Snæbjarnason varaformaður velferðarnefndar segir að skoða þurfi hvaða aðstæður það eru í lögum sem kveða á um að hægt sé að rjúfa þagnarskyldu heilbrigðisstarfsfólks komi upp rökstuddar ástæður.

Ekki er að sjá á dómi héraðsdóms í máli Margrétar Löf að langvarandi heimilisofbeldi hennar gagnvart foreldrum sínum hafi verið tilkynnt til lögreglu. Varaformaður velferðarnefndar telur að mögulega þurfi að skýra betur í lögum hvenær heilbrigðisstarfsmenn mega rjúfa þagnarskyldu komi upp rökstudd ástæða til þess.

Margrét Halla Hansdóttir Löf var í vikunni dæmd í 16 ára fangelsi fyrir að hafa banað föður sínum og fyrir stórfellda líkamsárás gegn móður sinni. Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjaness að Margrét beitti báða foreldra sína ofbeldi mánuðum saman áður en faðir hennar lést af völdum ofbeldisins og móðir hennar slasaðist alvarlega.

Í dómnum kemur jafnframt fram að á fjórða tug vitna hafi verið leidd fyrir dóm sem höfðu margir vitneskju um ofbeldi á heimilinu. Þar á meðal má nefna sálfræðinga sem sinntu Margréti, fjölskyldufræðinga sem fjölskyldan leitaði saman til og fjölda lækna sem sinntu foreldrum hennar á spítalanum. Hvergi er þess getið að tilkynnt hafi verið um málið til lögreglu. Þá kemur fram að foreldrar hennar vildu ekki að málið yrði tilkynnt. 

Vikuna áður en faðir hennar lést þurfti hann að leita sér læknisaðstoðar vegna margvíslegra áverka vegna ofbeldisins og þá hvatti læknir hann eindregið til að tilkynna árásirnar. Þá hvatti annar heilbrigðisstarfsmaður hann til þess aftur nokkrum dögum síðar en hann neitaði.

Þurfi að skýra betur lagaákvæði um þagnarskyldu

Í 17. grein laga um heilbrigðisstarfsmenn kemur fram að starfsmenn í heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. nemar og þeir sem ekki eru heilbrigðisstarfsmenn, skuli gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem þeir komast að í starfi sínu um heilsufar og ástand. Þetta gildi ekki bjóði lög annað eða rökstudd ástæða sé til þess að rjúfa þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar.

Kristján Þórður Snæbjarnarson varaformaður velferðarnefndar Alþingis segir að mögulega þurfi að skýra betur hvaða aðstæður falli undir brýna nauðsyn á rofi á þagnarskyldu.

„Það þarf að skoða sérstaklega hvaða ástæðum er vísað til þegar kemur fram í lögum að þagnarskylda gildi ekki þegar rökstuddar ástæður séu til þess að rjúfa hana. Það þarf að fara mjög vandlega og varlega yfir allt slíkt. Ég myndi telja að það þurfi að vera alveg skýrt hvernig það er. Ég held að það sé ágætt að það verði skoðað inn í framtíðina hvar liggi þar að baki,“ segir Kristján.

Hann segir ráðherra að hlutast til um breytingar en velferðarnefnd geti líka tekið málið upp.

„Velferðarnefnd getur líka tekið frumkvæði í slíkum málum og það má alveg búast við því að það verði umræða um það.“ segir Kristján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×