Körfubolti

„Sáttur að geta farið heim, borðað vel og fengið mér nokkra kalda“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristófer Acox skoraði tuttugu stig í kvöld.
Kristófer Acox skoraði tuttugu stig í kvöld. Vísir/Vilhelm

Kristófer Acox, leikmaður Vals í Bónus-deild karla í körfubolta, gat andað léttar eftir nauman þriggja stiga sigur liðsins gegn ÍR í kvöld, 82-85.

„Við þurftum að hafa fyrir þessu allar 40 fjörutíu mínúturnar,“ sagði Kristófer í viðtali við Vísi í leikslok.

„Við vissum að þetta yrði erfitt verkefni. Við erum náttúrulega nýbúnir að spila við þá í bikarnum og það var líka hörkuleikur í allavega þrjá leikhluta. Það getur alltaf verið erfitt að koma og spila svona við sama liðið tvo leiki í röð, en ég er bara gríðarlega sáttur með sigurinn.“

Leikplan ÍR-inga virtist að miklu leyti snúast um það að spila fast og gera Valsmönnum erfitt fyrir. Það gekk vel hjá heimamönnum framan af leik, en Valsmenn náðu þó að taka vel til í hausnum á sér í hálfleik.

„ÍR-ingarnir reyna yfirleitt að vera frekar 'physical' og þeir gera vel í því. Við vitum að það er erfitt að spila í Breiðholtinu þar sem þeir eru með áhorfendur með sér. Þeir eru kannski ekki með bestu leikmennina eða besta liðið, en þeir gera mjög vel með það sem þeir eru með í höndunum. Sérstaklega að búa til þessa orku hérna, hálfgerða úrslitakeppnisorku.“

„Við vorum líka bara frekar flatir í fyrri hálfleik og leyfðum þeim að komast aðeins í hausinn á okkur. Við vorum að láta litlu hlutina fara í taugarnar á okkur. Dómarana og kannski áhorfendur. En við gerðum vel í seinni hálflei, sérstaklega í þriðja leikhluta eftir að við lendum tíu undir.“

Hann segir þó að mögulega hafi það verið gott að lenda tíu stigum undir snemma í þriðja leikhluta.

„Það er kannski þægilegt að lenda tíu stigum undir snemma í seinni hálfleik þegar það er heill hálfleikur eftir. Við erum frekar sjóaðir og reynslumiklir þegar kemur að þessu. Við vissum að við myndum bara bæta aðeins í vörnina því við vorum að fá alveg galopin skot.“

„Ég veit samt ekki hvað við klikkum á mörgum opnum skotum og ég klikkaði á helliing af galopnum skotum. Þetta snérist bara um að binda saman vörnina og fá nokkur stopp og þá vissum við að þetta myndi koma á endanum. Þeir gera samt vel í að helda sér inni í leiknum. Bara vel gert hjá þeim að setja niður stór skot og berjast fyrir öllum fráköstum til að búa til alvöru leik.“

Að lokum segir Kristófer að framundan sé kærkomið frí og hefur litlar áhyggjur af því að það setji góðan takt Valsliðsins úr skorðum.

„Ég held ekki. Við erum búnir að ná að snúa þessu við eftir kannski aðeins erfiða byrjun á tímabilinu. Þetta eru nokkrir leikir í röð og við erum sáttir við það hvar við erum núna. En við vitum líka að það er mjög langt í land.“

„Það eru mörg mjög góð lið í deildinni og við vitum að við þurfum að nýta fríið vel, en það verður kærkomið að fá aðeins að slappa af. Þetta er búin að vera mikil keyrsla núna þar sem við erum búnir að spila þrjá leiki á sjö dögum. Ég finn það sjálfur að aldurinn er aðeins farinn að segja til sín. Þannig ég er mjög sáttur með að geta farið heim núna og hvílt mig yfir hátíðirnar, borðað vel og fengið mér nokkra kalda og notið þess. En við viljum að sjálfsögðu nýta fríið vel. Það eru svo bara stórir leikir beint eftir áramót,“ sagði Kristófer að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×