Skoðun

Vönduð laga­setning á undan­haldi

Diljá Matthíasardóttir skrifar

Á ferðaþjónustudegi Samtaka ferðaþjónustunnar síðastliðið haust komst ég svo að orði í opnunarávarpi mínu: „ég held að ég tali fyrir okkur öll sem störfum í ferðaþjónustunni þegar ég segi að við höfum einfaldlega verulegar áhyggjur af boðuðum áformum og aðgerðum stjórnvalda sem snerta atvinnugreinina með beinum hætti“. Þær áhyggjur eru nú að raungerast.

Það kemur hvorki undirritaðri né eflaust öðrum á óvart enda hefur það verið í deiglunni um þó nokkurt skeið að ferðaþjónustan skuli vera næsta atvinnugreinin á skattagrill ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur. Hins vegar er það mikið umhugsunarefni hversu eðlislægt ríkisstjórninni er orðið að gera breytingar á rekstrarumhverfi fyrirtækja og horfa fram hjá eðlilegum fyrirvörum þegar kemur að gildistöku þeirra.

Varnarorð virt að vettugi

Fyrir liggur að frumvarp ríkisstjórnarinnar um upptöku kílómetragjalds af akstri ökutækja sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti er orðið að lögum og tekur gildi strax í upphafi næsta árs. Um er að ræða umfangsmikla kerfisbreytingu sem hefur eðli málsins samkvæmt veruleg áhrif á fólk og fyrirtæki, sér í lagi ökutækjaleigur. Þrátt fyrir margþætt neikvæð áhrif, íþyngjandi kostnað og flækjustig sem breytingin hefur í för með sér fylgir henni nær enginn fyrirvari, aðeins örfáir dagar.

Ítrekað hefur verið varað við neikvæðum áhrifum af upptöku kílómetragjaldsins og kallað eftir eðlilegum fyrirvara og skynsamlegu aðlögunarfyrirkomulagi fyrir ökutækjaleigur. Það er eðlileg krafa fyrirtækja að óska eftir fyrirsjáanlegu rekstrarumhverfi enda er það grundvallarforsenda stöðugleika í rekstri. Ríkisstjórnin hefur aftur á móti kært sig kollótta um þau varnarorð og virt þau að vettugi. Nú eiga ökutækjaleigur og ferðaþjónustan einfaldlega að sitja í súpunni.

Kostnaðurinn hleypur á milljörðum

Í ljósi þess hve skammur fyrirvari er á kílómetragjaldinu mun það ekki fara svo að þeir borga sem nota vegakerfi landsins þar sem ökutækjaleigur hafa nú þegar leigt út stóran hluta af sínum ökutækjum fyrir næsta ár, þeim samningum verður ekki breytt eftir á. Stór hluti kílómetragjaldsins mun því falla á reikning ökutækjaleiga. Þar að auki skapast ekki aðeins verulega íþyngjandi kostnaður vegna innheimtunnar fyrir ökutækjaleigur heldur einnig neikvæð áhrif á eftirspurn fólks eftir ferðalögum til Íslands í ljósi þeirra verðhækkana sem gjaldið mun hafa í för með sér á útleigu ökutækja.

Það er ótækt að breytingar á rekstrarumhverfi fyrirtækja í boði ríkisstjórnarinnar hafi jafn íþyngjandi kostnað í för með sér og nú er að raungerast fyrir ökutækjaleigur, hann mun að öllum líkindum hlaupa á milljörðum. Þessum staðreyndum skeytir ríkisstjórnin engu. Vönduð lagasetning virðist vera á undanhaldi.

Höfundur er hagfræðingur Samtaka ferðaþjónustunnar.




Skoðun

Sjá meira


×