Erlent

Maðurinn sem var næstur í röðinni hjá mor­mónum látinn

Jón Þór Stefánsson skrifar
Jeffrey Holland (t.v) ásamt núverandi forseta kirkjunnar Dallin H. Oaks (t.h).
Jeffrey Holland (t.v) ásamt núverandi forseta kirkjunnar Dallin H. Oaks (t.h). Getty

Jeffrey R. Holland, háttsettur embættismaður hjá Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu, er látinn 85 ára að aldri. Hann var næstur í röðinni til að leiða söfnuðinn, sem gengur jafnan undir nafninu mormónakirkjan.

Holland var formaður stofnunnar innan kirkjunnar, sem kalla mætti Sveit hinna tólf postula. Hann hafði jafnframt verið lengst í sveitinni af öllum lifandi meðlimum. Löng hefð er fyrir því að lengst starfandi meðlimur þeirrar sveitar sé valinn forseti mormónakirkjunnar.

Henry B. Eyring, sem er 92 ára gamall, er eftir andlát Hollands sá sem lengst hefur verið í sveitinni og þar með sá sem er álitinn næstur til að verða forseti safnaðarins.

Dallin H. Oaks, núverandi forseti mormónakirkjunnar, er 93 ára gamall. Hann tók við sem forseti fyrr á þessu ári eftir að forveri hans, Russell M. Nelson, lést 101 árs að aldri.

Meðlimir mormónakirkjunnar eru sagðir rúmlega 17 milljónir um allan heim, en sterkasta vígi hennar er án efa Utah-ríki Bandaríkjanna, en þaðan var einmitt Holland.

Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu er starfrækt á Íslandi, og samkvæmt hagstofunni eru meðlimir hennar 115 talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×